21.08.1917
Sameinað þing: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (3794)

90. mál, hafnargerð í Þorlákshöfn

Sigurður Sigurðsson:

Þingsályktunartill. þessari, um hafnargerð í Þorlákshöfn, hefir verið breytt nokkuð í háttv. Ed. En þar sem við flm. hennar fáum ekki annað sjeð en að hjer sje frekar um orða- en efnisbreytingu að ræða, væntum vjer þess, að till. verði samþ. hjer í háttv. Sþ. Munurinn er í raun og veru sá einn, að í till., eins og hún var upphaflega, var skorað á stjórnina að láta rannsaka sem fyrst byggingu öruggrar hafnar í Þorlákshöfn. En háttv. Ed. vill láta leggja mælingar hr. Jóns Ísleifssonar, verkfræðings, til grundvallar þeirri rannsókn. Flm. vilja því mælast til þess, að háttv. þm. samþ. till., í því trausti, að rannsókn þessi fari fram sem fyrst, svo að brátt verði unt að byrja á verkinu, sem er svo mikið nauðsynjamál fyrir hjeruð þau, sem hjer eiga hlut að máli.