10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (3795)

143. mál, verðhækkunartollur

Sigurður Sigurðsson:

Jeg get lýst því yfir strax, að í upphafi vega sinna á þessu þingi gerði jeg ekki ráð fyrir, að þessi lög um bráðabirgðaútflutningstoll frá 16. sept. 1915 yrðu framlengd.

En þegar jeg sá frv. stjórnarinnar á þgskj. 398, þá leit jeg svo á, og studdi mig þar við ummæli hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), að það miðaði eingöngu að því, að borgaður yrði skattur tvisvar sinnum af öllum útfluttum afurðum landsins. En ef lögin gengju úr gildi 16. sept. 1917, þá yrði nokkur hluti af ýmsum vörutegundum ekki tollaður nema að eins einu sinni. Till. mín er líka miðuð við þetta, og enn fremur við það, að lögin gildi að eins til næsta árs, og að þessi tollur nái ekki til annara útfluttra aturða en þeirra, sem eru framleiddar 1917. — Lengra finst mjer jeg ekki geta farið. Og er því á móti till. þeirra hv. þm. S.-Þ. (P. J.) og 1. þm. Reykv. (J. B.), sem er á þgskj. 800. Jeg álít sem sje, að ekki komi til nokkurra mála, að framlengja lögin lengur en ákveðið er í frv. stjórnarinnar. Þetta er nú mín skoðun, og flestra annara þingmanna, að eg hygg. Það kom berlega í ljós, bæði á þinginu 1915 og enn fremur á aukaþingi í vetur, að ekki ætti að framlengja lögin. Að vísu mun það ekki hafa verið bein yfirlýsing. En í öllum umræðum þá um málið, var það skýrt tekið fram, að rjett væri, að lögin stæðu út sinn tíma til 16. sept., en að ekki kæmi til mála, að þau yrðu framlengd. Og þetta hygg jeg að sje skoðunin manna enn. Eins og jeg tók fram áðan, mun aðalástæðan fyrir tillögu stjórnarinnar, um framlenging á lögunum, vera sú, að ná tvisvar tolli af öllum útfluttum afurðum. En falli lögin úr gildi nú, þá raskast við það jafnvægið, þar sem tollur er tvígoldinn af nokkru, en ekki sumum afurðum. Það hefir verið borgaður tvisvar tollur af kjöti og gærum. Og með þetta fyrir augum legg jeg til, að 14. og 16. liður falli niður. Aftur á móti er ekki búið að borga toll af hestum nema einu sinni. Þess vegna tel jeg ekki rjett að fella þann lið niður, ef ske kynni, að eitthvað yrði flutt út af hestum í haust, sem er ekki alveg óhugsanlegt, þó það sje fremur vonlítið. Bjargráðanefnd neðri deildar fór þess á leit við stjórnina snemma á þingi, að hún gerði alt, sem í hennar valdi stæði, til að fá leyfi hjá Englendingum til að flytja hesta beina leið til Norðurlanda.

Jeg veit svo ekki hvað stjórnin hefir gert í þessu, eða hvort hún hefir gert nokkuð, eða hver er árangurinn. — En hins vegar hefir verið sagt hjer, og það er víst satt, að 1915, þegar þessi tolllög gengu í gildi, þá hafi talsvert af síld og fiski, sem þá hafði fiskast, verið þegar keypt og sent út, og þannig komist undan tolli. Og því hefir ekki verið greiddur nema einu sinni tollur af nokkru af sjávarafurðum síðan 1915. — Með þetta fyrir augum kom jeg fram með till. mína. Og þetta vakti enn fremur fyrir mjer, þegar jeg greiddi atkv. með málinu til 3. umr., sem sje með því, að lögin yrðu framlengd til 1918, og að tollur kæmi ekki til greina á öðrum vörum en þeim, sem einu sinni hefir verið greitt af áður. Afstaða mín í málinu er bygð á þessu, og jeg get því ekki tekið till. mína aftur, eins og hv. þm. S.-Þ. (P. J.) fór fram á. — Mjer hefði ekki dottið í hug að óska þess, að þessi tollur yrði framlengdur, ef hækkunin á útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem hjer var til umr. fyrir skömmu, hefði verið samþykt. En þar sem það nú var felt, þá tel jeg ekki nema sanngjarnt, að goldinn sje tollur af þessum afurðum í samræmi við landbúnaðinn. — Jeg hefi svo ekki fleira að segja í þessu máli. Jeg hefi áður lýst yfir því, að jeg er algerlega á móti brtt. á þgskj. 800, að lögin verði framlengd til 1919. Og falli mínar breytingatillögur, greiði jeg atkvæði á móti frumvarpinu.