28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3798)

163. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jörundur Brynjólfsson:

Þegar mál þetta kom til umræðu hjer í deildinni. mætti það allmiklum mótmælum, og bjóst jeg þá við, að háttv. fjárhagsnefnd mundi taka það aftur til athugunar og reyna að miðla málum, með því að breyta frv. á þann veg, að sjávarútvegsmenn mættu betur við una. En þessar vonir hafa með öllu brugðist, því að enn er frv. í sömu mynd sem það var áður.

Meðhaldsmenn frv., og þá líka hv. nefnd, halda því fram, að þeir hafi borið mál þetta fram til að koma á jafnvægi á milli landbúnaðar og sjávarútvegs að því er landssjóðsgjöldin snertir. Þeir segja, að lausafjárskatturinn, sem aðallega legst á landbúnaðinn, sje orðinn svo hár, að eitthvað verði að fá, til að vega móti hækkun hans, af sjávarútv., og ráðið til þess sje að hækka útflutningsgjald á fiski um helming. Það getur verið, að þetta sje ekki fjarri sanni, þegar litið er á það eitt, að meðalalin hefir hækkað og þar afleiðandi lausafjárskatturinn, en útflutningsgjaldið ekki verið hækkað; en hjer er á miklu fleira að líta en það, sem meðhaldsmenn frv. hafa borið fram, og hefir þegar að nokkru leyti verið sýnt fram á það, og vil jeg ekki tefja tímann með því að fara frekara út í það að sinni.

Jeg skil það vel, að háttv. nefnd hafi leitað að öllum framleiðendum til að afla tekna, og jeg mundi ekki hafa sett mig á móti þessum gjaldauka, ef hann væri ekki svo einhliða og órjettmætur sem hann er. Jeg sje fyllilega þörfina á auknum tekjum, og þótt sjávarútvegurinn standi nú höllum fæti, þá mundi þessi gjaldauki ekki velta honum um koll, þótt hann geri honum erfiðara fyrir. En ef sjávarútvegurinn á að taka á sig nýja byrði á þessum erfiðu tímum, þá má landbúnaðurinn ekki hliðra sjer hjá að gera hið sama. Jeg hygg, að það sje ekki til neins að vera að tala um að sníða sjer stakk eftir vexti, þannig að láta tekjur og gjöld standast sem mest á. Ástandið er óvenjulegt, og sjálfsagt ófær vegur að auka nú í bili skattabyrðina svo, að tekjur vegi upp á móti gjöldum. Slík aðferð mundi veikja gjaldþol einstaklinganna um of, og þá jafnframt gjaldþol og tiltrú þjóðarinnar í heild sinni, og það mundi verða til þess að skapa ný vandræði. Hjer mun því ekki annar vegur fær en að landið hleypi sjer í skuld, meðan svo stendur, til að reyna að halda öllu í horfinu, svo að sem minst verði komið í kalda kol, þegar úr fer að rætast.

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls að þessu sinni, en nokkur orð í ræðu háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) komu mjer til þess. Hv. þm. (G. Sv.) mintist á þann ríg, sem gæti orðið milli sveita- og sjávarbúa, og bjóst við, að hann mundi síst verða minni eftir þetta þing en áður. Kvað hann oss, sem erum málsvarar sjávarútvegarins, vera orsök þessa. Jeg hygg, að allir sanngjarnir menn sjái, að þessi ásökun er röng. Það erum ekki vjer, sem erum að ýta byrðum yfir á landbúnaðinn, heldur hinn flokkurinn, sem reynir að ljetta gjöldum af landbúnaðinum, en þyngja þau á sjávarútveginum. Má þar benda háttv. þm. (G. Sv.) á einstök atriði. öndverðlega á þinginu var farið fram á að afnema verðhækkunartollinn á ull, og var sagt, að það væri gert til að ljetta á bændum. Það hefir og verið borið fram frv. um að hækka síldartollinn; og þetta er gert einmitt nú, þegar það eru því nær eingöngu innlendir menn, sem síldveiðarnar reka. En meðan útlendingar óðu hjer uppi og tóku fólk frá landbúnaðinum, þá var ekki á þetta minst. Þetta sýnir fyrirhyggjuleysi og þröngsýni og er líklegt til að vekja kala.

Þá hefir stjórnin komið með tvö frv. nú um þingtímann, annað um verðhækkunartoll, sem að nokkru snertir landbúnaðinn, en þó miklu meir sjávarútveginn, hitt um hækkun á vitagjaldi.

Fjárhagsnefnd hefir ekki haft neitt við vitagjaldshækkunina að athuga; auðvitað sigla bændur heldur ekki með rollur sínar fram hjá vitunum, og hækkunin lendir ekki á þeim. Þó er ekki svo að skilja, að jeg hefði á móti vitagjaldshækkuninni. En frv. um verðhækkunartollinn svarar háttv. fjárhagsnefnd með því að koma með þetta frv., og leysir með því bændur undan gjaldauka þeim, sem stjórnarfrv. ætlaðist til að á þá væri lagður. Jeg hefði ekki haft svo mjög á móti því, þótt háttv. nefnd veldi þessa leið, ef hún hefði, til að miðla málum, lagt til, að eitthvert ofurlítið gjald væri líka lagt á landbúnaðinn, og jeg vonaði í lengstu lög, að svo yrði, og með því sneitt hjá ágreiningi milli þessara atvinnuvega.

Það er rjett hjá háttv. þm. Ísf. (S. St. og M. Ó.), að sjávarútvegurinn er hætt staddur og ekki sýnilegt nú, að hægt verði að halda úti öðrum skipum í vetur en róðrabátum. Alt, sem til botnvörpungaútgerðar heyrir, er svo dýrt, að vonlítið er um, að þeir gangi nokkuð í vetur, og óvíst um mótórbáta, með því að olía og salt er nú svo dýrt.

Háttv. fjárhagsnefnd hefir gefið fyrirheit um að afgreiða ekki verðhækkunartollsfrv. fyr en útsjeð væri um, hvort þetta frv. yrði samþykt eða ekki. Af þessu er það auðsætt, að hv. nefnd hugsar eingöngu um annan atvinnuveginn, því að verðhækkunartollurinn næði þó ofurlítið til landbúnaðarins, en eftir þessu frv. er eigi snert við honum. Sem betur fer, eru sumir landbúnaðarmenn hjer á þingi svo skapi farnir, að þeim þykir nú oflangt farið og vilja ekki fylgjast með. Helst hefði jeg kosið, að háttv. nefnd tæki málið til nýrrar athugunar og reyndi að finna einhvern miðlunarveg, sem báðir málsaðiljar gætu unað við.