23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Frsm. samvinnunefndar samgöngnmála (B. Sv.):

Jeg gleymdi áðan að minnast á brtt. hv. þm. Mýra. (P. Þ.) um 400 kr. styrk til vjelbátsferða frá Borgarnesi með fram Mýrum, um Straumfjörð og Akra.

Háttv. þm. (P. Þ.) spurði í ræðu sinni, hvort samgöngumálanefnd mundi ekki líta svo á, að fjárveiting sú, sem ætluð er til bátaferða um Faxaflóa, gæti og náð til viðkomustaða þeirra, sem um ræðir í breytingartillögu hans. Jeg lít svo á, sem stjórnin hafi á valdi sínu að ráða fram úr þessu, eftir því sem henni þykir best henta, og með því að hjer er um tvo staði að ræða, sem áður hafa verið viðkomustaðir Faxaflóabátsins, þá er síður en svo, að samgöngumálanefndin að sínu leyti leggi á móti, að svo verði framvegis, og þótt hún sjái sjer ekki fært að mæla með brtt., þá amast hún ekki við því, að svo sje um hnútana búið, að Faxaflóabáturinn komi þar við eftirleiðis, eða að stjórnin ráði á annan hátt bót á samgönguþörf þangað, eftir því sem henni sýnist hentugast.

Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) hafði ýmislegt að athuga um flóabátana, og skal jeg svara honum nokkru. Það er tilætlunin, að almennu skilyrðin undir C. III. standi óbreytt, eins og þau eru í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar. Þar er svo að orði kveðið, að hlutaðeigandi hjeraðsstjórn sendi landsstjórninni ýms tilgreind skjöl, og er það því rjett athugað hjá háttv. þm. (E. Árna.), að gleggra væri til orða tekið, ef hjer stæði »hjeraðsstjórnir« í stað »hjeraðsstjórn«, þar sem ætlast er til, að fleiri en ein sýsla sje um sama bátinn. Svo hefir og verið að nokkru undanfarin ár, og mun þetta atriði ekki leiða til misskilnings eða neinna vandræða.

Háttv. þm. (E. Árna.) var hræddur um, að seinlegt yrði með allar útvegur báta og ráðstafanir, ef fleiri sýslur ættu að vera um sama bátinn. Hingað til hefir það ekki valdið neinum sjerlegum örðugleikum. Ekki reyndist það svo um Langanessbátinn í vor; það liðu ekki nema fáeinir dagar frá því er byrjað var á samningum og þangað til alt var komið í kring. Þó má athuga til 3. umr., hvort ástæða muni til að breyta í einhverju orðalagi skilyrðanna.

Háttv. þm. (E. Árna.) var ekki ánægður með, hvernig bátaferðunum skyldi hagað. Honum þótti bátnum, sem á að ganga milli Sauðárkróks og Seyðisfjarðar, ætlað ofmikið starfssvið, og að hann mundi verða óhæfilega seinn í förum, þar sem hann ætti að hafa um 30 viðkomustaði. En háttv. þm. (E. Árna.) athugaði það ekki, að bátnum er ekki ætlað að koma á alla þessa staði í sömu ferðinni. T. d. er honum ekki ætlað að koma á hina mörgu viðkomustaði við Eyjafjörð, nema stöku sinnum, og til þess ætlaðar sjerstakar aukaferðir frá Akureyri og þangað aftur.

Háttv. þm. (E. Árna.) gerði mikið úr þörfinni á bátaferðum um Eyjafjörð. Það er rjett. Þar er mikil umferð og flutningaþörf. Þó mun til helsti mikils ætlast að vilja hafa sjerstakan bát fyrir Eyjafjörð einan. Þó að bátar brotnuðu við Eyjafjörð í vetur, kemur það þessu máli lítið við, og það því minna, þar sem í núgildandi fjárlögum er einmitt veitt fje til Eyjafjarðarbáts, og þó fór svona, að bátarnir brotnuðu.

Það er satt, að tillögur samgöngumálanefndar eru ekki miðaðar við frambúðarástand; en búast má við aukaþingi að sumri, og þá munu samgöngumálin verða tekin til nýrrar athugunar og breytt til, ef annað sýnist mega betur fara, eftir horfum þá.

Samgöngumálanefnd þykir háttv. þm. (E. Árna.) ekki þurfa að vera óánægður með, hvernig hún vill ráða bót á samgönguþörf Eyfirðinga.

Í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar eru ætlaðar 3500 kr. til Eyjafjarðarbáts. Þessa upphæð hefir samgöngunefnd fimmfaldað og lagt til, að veittar væru 18000 kr. Er þá ekki nema eðlilegt, að ætlast sje til, að báturinn sigli um stærra svæði. Auk þess er sjeð fyrir Eyjafirði, umfram aðra firði, með því, að bátnum er ætlað að fara aukaferðir um fjörðinn. Nefndin getur ekki fallist á, að það sje rjett að láta þennan bát ganga að eins til Þórshafnar, en að Austfjarðabáturinn hafi alt hitt svæðið þar fyrir austan og sunnan.

Fyrir útgerðarmenn á Seyðisfirði, sem stunda sjávarútveg við Langanes og á Siglufirði, er sú tilhögun, sem nefndin gerir ráð fyrir, lang haganlegust.

Suðurfjarðabáturinn hefir og nóg að gera, þótt hann fari ekki lengra norður en til Seyðisfjarðar. Hann þarf víða við að koma, þar á meðal á Hornafirði, en þangað er sigling tafsöm og erfið. Auk þess er ætlast til, að hann bregði sjer í viðlögum til Reykjavíkur. Nefndin hyggur, að hún hafi yfirleitt komist að heppilegri niðurstöðu og rjettri, enda hefir hún leitast við að hafa fyrir augum hag alls landsins, er hún samdi tillögur sínar. En hætt er við, að einstakir þingmenn hafi í tillögum sínum um of fyrir augum hag hjeraðs síns, og því þarf að athuga gaumgæfilega tillögur þær, sem frá þeim koma, áður en þær eru samþyktar; annars er hætt við, að þær komi á ruglingi.

Háttv. framsm. fjárveitinganefndar (M. P.) var enn að amast við styrk til bátsferða milli Rauðasands og Patreksfjarðar, og vildi, að Breiðafjarðarbáturinn fengi allan styrkinn, en ætti svo að koma við á Rauðasandi Jeg er hræddur um, að fjelagið, sem á Breiðafjarðarbátinn, mundi ekki verða háttv. þm. (M. P.) þakklátt fyrir tillögu þessa., því að það væri ekki lítill ábætir fyrir fjelagið að þurfa að láta svo stóran bát fara þangað. Þar er lending slæm og hagar svipað til og við Rangársand. Þarf að hafa sjerstakan bát til þessara ferða, ef að haldi á að koma.

Það er álitamál, hvort hugsanlegt er, að sami báturinn annist allar ferðir um Breiðafjörð, og því hefir samgöngumálanefnd lagt til, að fjeð sje veitt »til ferða á Breiðafirði«; er það í betra samræmi við núgildandi fjárlög (»til Breiðafjarðarbáta«) en orðalag stjórnarfrv., þar sem stendur: »Til Breiðafjarðarbáts«, og í betra samræmi við þau en brtt. á þgskj. 579.1, sem vill, að fjeð sje veitt H.f. »Breiðafjarðarbáturinn«. Það mun rjettast að ganga að tillögum samgöngumálanefndar og láta stjórnina ráða fram úr því, hvernig ferðunum skuli hagað. Það gæti komið af stað deilum, ef einu fjelagi væri veittur allur styrkurinn, og betra, að samkomulag komist á með hjeruðunum og stjórninni um það, hvernig fjenu sje varið.

Jeg hygg, að óþarfi muni að fara fleiri orðum um þetta, því að sannfæring flestra háttv. þingdm. mun svo rík um hvað eina, að langar umræður munu lítt geta haggað henni.1)

1) Hjer ritar ræðumaður: „Þessi skrifari (?: Jóhannes adjunkt Sigfússon) ber sem gull af eiri“.