05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 787 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Jeg held, að jeg hafi tekið það fram, að frv. væri sjerstaklega gert til þess að ljetta undir með hlutaðeigandi hjeruðum, og jafnframt áskilja tryggingu fyrir greiðslu þess tillags, sem þeim er ætlað að leggja fram.

Háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) spyr, hvað landssjóður beri upp af þessu væntanlega uppunna landi. Það er rjett, að frv. svarar ekki þeirri spurningu, vegna þess, að það er ekki eingöngu gert fyrir Rangæinga, heldur fyrir landið í heild sinni.

Á síðasta þingi svaraði þessi háttv. þm. (P. J.) ekki þessari spurningu. Hefir ef til vill ekki lagt hana þá fyrir sig sjálfan, þótt hann væri þá með fjárveitingu til þessa fyrirtækis. Jeg skal nú skýra frá, hvað fyrir mjer vakir í þessu efni. Meginsvarið verður það, eins og ætíð, þegar um hagfeld umbótafyrirtæki er að ræða, til að græða upp landið eða auka til muna jarðargróðann, að þá er verið að leggja í sparisjóð fyrir landið sjálft, og sá höfuðstóll mun gefa landinu ríkulega vexti í framtíðinni.

Í öðru lagi væri það vandasamt verk fyrir stjórnina að fara í þessu sjerstaka tilfelli að leggja til að setja ákvæði um, hver verðaukaskattur ætti að koma á jarðirnar vegna þessara umbóta. Jeg veit það, að margir menn ætlast til, þegar um þetta eða þessu lík fyrirtæki er að ræða, að þá verði lagður á verðhækkunarskattur, sem eðlilega leiði af svona löguðum umbótum, kostuðum að miklu leyti af almannafje. En hugmyndir manna í því efni eru enn nokkuð á reiki, og engin regla komin á því viðvíkjandi. Sýnist því tæplega sanngjarnt, að byrjað sje þegar á endurgjaldskvöð í þessu sjerstaka tilfelli. Slíkt kann að koma til mála ef verkið, sem vinna skal, hepnast mjög vel, og þá í samræmi við viðteknar almennar reglur um verðhækkun yfirleitt

Að því er snertir það, hver eigi þessi öræfi niðri í þessum breiða dal, þá get jeg ekki svarað því. En væntanleg nefnd í málinu mun geta fengið um það upplýsingar hjá stjórnarráðinu. Annars mun háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) geta gefið nokkrar upplýsingar til bráðabirgða.

Jeg verð að halda því fram, að það væri nokkuð hart aðgöngu, ef háttv. þingdeild vildi koma í veg fyrir framgang þessa máls, fyrir þá ástæðu eina, að hjer er ekki gert ráð fyrir verðhækkunarskatti eða neinu þess háttar.