05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 793 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Pjetur Jónsson:

Mjer kom það mjög á óvart, að hæstv. atvinnumálaráðherra skildi fyrirspurn mína sem mótþróa gegn frv. því, sem hjer liggur fyrir, eða að jeg vildi bregða fæti fyrir það. Jeg tók einmitt greinilega fram, að mjer þætti vænt um, að frumv. væri komið fram, og að jeg væri því hlyntur. Enn fremur undraðist jeg stórum, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) skyldi fara að hnjóða í mig. (S. S.: Jeg?) Mjer skildist svo á ræðu hins háttv. þm. (S. S.: Þingmaðurinn ætti að taka betur eftir). Jeg vildi alls enga hindrun leggja í veg málsins, nje amast við því. Jeg var einungis að fara fram á að fá upplýsingar um, hvort landssjóður ætti að fá nokkra hlutdeild í þeim nýju löndum, sem einstakir menn fengju á þennan hátt með tilstyrk hans. Þetta var jeg að spyrja um, hvort stjórnin hefði hugsað um. Jeg kalla það ekki að bregða fæti fyrir þetta mál, þótt ætlast væri til, að sá, sem leggur ¾ í fyrirtækið, fengi einhverja þóknun, ef um »positivan« gróða væri að ræða. Eins og jeg hefi tekið fram áður verður landssjóður að hlaupa undir bagga, þegar um slík nauðsynjafyrirtæki er að ræða, sem einstökum mönnum og hjeruðum eru ofvaxin, svo að verkið verði ekki oflengi á leiðinni. Þetta litla tillag úr landssjóði 1915 var að eins undirbúningur, og gat ekki komið til mála að setja þá sjerstök skilyrði um, hver ágóðann fengi af fyrirtækinu, þegar það væri komið í framkvæmd. En þegar ákveðið er, að fyrirtækið skuli komast á og að landssjóður skuli leggja ¾ af kostnaðinum, þá er og rjett, að lögin geri ráð fyrir, hvernig gróðinn af fyrirtækinu skiftist, eða hver hans á að njóta.

Landssjóður hefir oft lagt fram tillög til hvatningar og styrks þeim, er lagt hafa í ræktunarfyrirtæki, en slík tillög hafa aldrei numið helmingi, því síður meiru, nema landssjóður hafi sjálfur átt lönd eða hagsmuni.

Hjer er alt öðru máli að gegna. Jeg vona líka, að þarna verði til með tímanum frjósöm lönd, sem ekki sje rjett að einstaklingar eignist fyrir sama og ekki neitt. Jeg segi þetta ekki eingöngu fyrir landssjóðs hönd, heldur og þeirra sýslufjelaga, er að líkindum leggja til fjeð að ¼ hluta.

Þegar hjer var rætt um járnbraut fyrir nokkrum árum, var auðvitað gert ráð fyrir því, að jarðirnar, er að henni lægju, myndu vaxa stórkostlega í verði. Þá var einnig gert ráð fyrir, að landssjóður legði fram fje til fyrirtækisins, eða ábyrgðist það og rekstrarkostnað, en fengi jafnframt eitthvað í staðinn fyrir þá verðhækkun, er þannig yrði, landeigendum að þakkarlausu. Var því jafnframt járnbrautarfrumvarpinu lagt fram frumvarp um verðhækkunarskatt. Það er rjett, einmitt um leið og stofnað er til slíkra stórfyrirtækja á landssjóðskostnað, að þá sjeu um leið gerðar ákvarðanir um, hvað landssjóður fær fyrir snúð sinn. Sýnist mjer í þessu máli helsta ráðið vera verðhækkunarskattur.

Jeg fyrir mitt leyti álít alls ekki holt, að landssjóður stingi stórfje í vasa einstakra manna fyrir alls ekkert. Hvort sú háttv. nefnd, er málið fær til meðferðar, vill taka orð mín til greina að nokkru, læt jeg hana um. Jeg hefi gert mína skyldu.

Jeg fyrir mitt leyti kann ekki við, að málinu sje vísað annað en til landbúnaðarnefndar. Í þeirri nefnd á sæti maður, sem allra manna er kunnugastur þeim málum, er lúta að landbúnaðinum, og jeg þykist og vita að kynt hafi sjer þetta mál.