05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (384)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að taka undir það með háttv. 2. þm. Rang. (E. J.), að jeg er þakklátur stjórninni fyrir, að frv. kom fram, og þykir vænt um, að allir, sem talað hafa, eru því fylgjandi. Það spáir góðu um afdrif frv. Það var hárrjett, sem 1. þm. Árn. (S. S.) tók fram, að það getur orðið alveg ónýtt að leggja smám saman fje í að kosta fyrirhleðslur til varnar vatnagangi, og getur hæglega kostað miklu meira að gera það í annað sinn, svo að gagni komi. Það, sem hann bygði á, er að í fjárlögunum er framlagið takmarkað við vissa upphæð á ári. En jeg sje ekki annað en að stjórnin geti eftir tillögum landsverkfræðings látið halda áfram verkinu og ljúka því í einu, ef á þarf að halda, svo að garðurinn eyðileggist ekki. Jeg vildi einmitt fylgja því, að landið tæki lán til að ljúka verkinu í einu. Jeg get ekki hugsað mjer annað en að það borgi sig fyrir þetta land að fá dalinn aftur, eins og hann var á dögum Gunnars á Hlíðarenda, og þegar menn sátu í Rauðuskriðum og hjuggu skóg. En verkið er mikið, og því að eins framkvæmanlegt, að gert sje skynsamlega og alt í einu, svo að annaðhvort standi eða falli, en ónýtist ekki jafnóðum.

Hitt skil jeg ekki, að svo vöxnu máli, að ætla landssjóði verðhækkunarskatt. Það gæti þá fyrst komið til greina, er jarðirnar væri orðnar jafngóðar og áður var.

Jeg veit, að þá er jeg reið um Fljótshlíð í fyrsta og annað sinn, var þar mikill munur á, hve jarðir höfðu skemst miklu meir í síðara skiftið. Þetta er ekki ræktunarfyrirtæki, er landssjóður eigi að leggja í ¾ hluta kostnaðar fyrir ekkert. Þetta er björgunarfyrirtæki, vörn fyrir voða, er sækir á eitt hjerað í hjarta landsins. Helst gæti það talist hliðstætt brimbrjót í Bolungavík. — Margir menn hafa ágóða af slíkum brimbrjót, og þó enn fleiri hafa mestan gróða — bjarga lífinu. Þetta fyrirtæki á að vera til varnar gegn skaðlegum náttúruöflum. Náttúran sjálf græðir landið án landssjóðsstyrks, ef það er varið fyrir voðanum. Það er sama, hver voðinn er, hvort heldur Markarfljót, brim, eldgos eða sandfok. Hver myndi heimta verðhækkunarskatt af löndum, sem varin eru gegn sandfoki? Það er skylda alþjóðar að verja einstaka landshluta og einstaklinga þeim hættum, er ógna og þeir fá ekki reist rönd við.