05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Einar Arnórsson:

Að eins örstutt athugasemd. Fyrst vildi jeg taka það fram, að jeg skil ekki vel, hvers vegna stjórnin hefir áætlað 12,000 kr. í fjárlögunum hvort árið. Fyrst að undirbúningurinn er þegar gerður, finst mjer þetta mál heyra undir 22. gr. fjárlagafrv., um útgjöld, sem sjerstaklega verða samþ. í einhverjum lögum, sem þingið kann að afgreiða. Finst mjer því þessi liður fjárlaganna vera villandi og eiga að fara burt. Það getur verið óheppilegt að setja bráðum framkvæmdum verksins takmörk með oflítilli fjárveitingu, og get jeg í því efni skírskotað til orða háttv. samþingismanns míns (S. S.) og háttv. þm. Dala.

(B. J.), er báðir hafa tekið þetta rjettilega fram og fært full rök að því.

Þá kem jeg að því atriði, hvaða nefnd eigi að fá málið til meðferðar. Það hafa komið fram, að jeg held, 3 till. um það. Jeg vil taka það fram, að mjer finst fjárveitinganefndin fjarstæðust. Hið eina í frv., sem kemur til kasta fjárveitinganefndar, er umsögn um fjárveitingar úr landssjóði. Ef öll frv., sem hafa í för með sjer slíkar fjárveitingar, ættu að heyra undir þessa nefnd, fengi hún til meðferðar 50—75% af öllum málum, er fyrir þingið koma. Jeg hefi skilið þingsköpin svo, að á reglulegu þingi væri það einkum útgjaldabálkur fjárlaga, er kæmi til kasta þessarar nefndar, en að öðru leyti engin mál, nema þá umsögn um fjárveitingahlið einstakra mála. Hvort landbúnaðarnefnd eða allsherjarnefnd fá málið til meðferðar, stendur mjer á sama. En mjer finst beint »princip«-brot að vísa frv. til fjárveitinganefndar. Enn er sá einn vegur, að kjósa sjerstaka nefnd, ef svo mikið skyldi vandað til. Býst jeg við, að málið sje vel komið í landbúnaðarnefnd; þar er háttv. samþingismaður minn (S. S.) og fleiri, sem vel eru kunnugir. Í allsherjarnefnd er t. d. 2. þm. Rang. (E. J.), sem er allra manna kunnugastur staðháttum.