07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (392)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Þórarinn Jónsson:

Jeg hefði kunnað betur við það, að þessu nefndaráliti hefðu fylgt meiri upplýsingar um málið. Ef vel hefði verið, hefði þurft að prenta allar áætlanir og aðrar upplýsingar með nefndarálitinu. Þetta mál er það stórmál, að marga þingmenn mun langa til að setja sig sem best inn í það. En þetta er, að sjálfsögðu, ekki hægt með því að lesa nefndarálitið.

Mig langaði til þess að vita, á hverju sú áætlun væri bygð, að hækkunin á kostnaði við framkvæmd verksins nú, frá því sem var fyrir stríðið, næmi ekki nema 20%. Vitanlega datt mjer ekki í hug, að sú áætlun væri sennileg, og nú veit jeg, að nefndin er á líkri skoðun. En jeg fann ekki heldur neinar upplýsingar um það, á hverju þessi áætlun var bygð.

Nefndin segir einnig á einum stað í nefndarálitinu, að áríðandi sje, að rannsakað verði vatnsmagn fljótsins á öllum tímum árs, áður en gengið sje frá fyrirhleðslunni. Hafi þetta ekki verið gert áður en áætlunin var gerð, þá sje jeg ekki annað en að hún hljóti að vera gerð út í bláinn.

Þá segir nefndin, að löndin, sem nú eru í auðn, muni gróa upp, og er í sambandi við það að tala um verðhækkunarskatt á jörðunum, svo sem eins og endurgreiðslu á fje því, sem nú er lagt í fyrirtækið. Og þótt jeg telji þetta ekki mjög miklu máli skifta, þá mætti þó gera tilraun til þess; en hún er engin gerð. Annað atriði er það, sem miklu máli skiftir, hverjar upphæðir eru teknar upp í fjárlögin til framkvæmda verksins. Nú hefir stjórnin tekið upp 12000 kr. hvort árið. En jeg hygg, að hjer sje mikið athugavert við. Það er ekki ólíklegt, að svo hagi til, að mikla nauðsyn beri til að veita stórum meira fje í einu, ef svo stæði á, að fullgera þyrfti sjerstakan hluta verksins, svo að ekki ónýttist eða lægi undir skemdum alt verkið. Þetta og margt fleira verður að liggja alveg glögt fyrir, áður en byrjað er á verkinu, því að verði flanað út í það, áður en nákvæmar rannsóknir hafa farið fram í þessa átt, þá má eins búast við því, að alt verkið verði ónýtt áður en varir.

Jeg er líka dálítið hissa á því, ef þetta fer orðalaust gegnum þingið, því að vanalega hefir það verið fundið að, að ekki lægju fyrir nógu glöggar upplýsingar um verkin. Og svona hefir jafnvel verið talað um smábrúargerðir, sem landssjóður hefir átt að kosta að einhverju leyti. En þegar svona stórmál er á ferðinni, þá er eins og alt sje gott. Þetta hefi jeg ekki tekið fram í því skyni að mótmæla því, að landssjóður leggi hjer fram fje eða hlaupi undir bagga, þar sem svo stendur á, að um stórskemdir er að ræða, en jafnsjálfsagt er það að undirbúa verkið rækilega, og mætti telja sjálfsagt, að fleiri verkfræðingar gerðu þar um áætlun, svo mjög sem nú virðist bóla á því, að verk þeirra fari forgörðum, og mikið fje eyðilegst fyrir undirbúningsleysi og aðra galla, frá verkfræðinganna hálfu. Þetta vænti jeg að verði vel athugað, áður en byrjað er á verkinu.