07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

14. mál, fyrirhleðsla fyrir Þverá og Markarfljót

Þórarinn Jónsson:

Það hefir verið tekið fram, greinilegast af 2. þm. Rang. (E. J.), að málið er ekki svo undirbúið sem skyldi. Þessu hefi jeg einmitt haldið fram. Jeg er ekki á móti þessu fyrirtæki, en jeg vil, að greinilegra og ábyggilegra upplýsinga sje leitað, áður en ráðist er í það. Það vita allir, að stórvirki, sem hefir verið kostað til tugum þúsunda, getur eyðilagst á einum degi. Þetta gefur sannarlega ástæðu til, að margir sjeu látnir segja álit sitt áður en ráðist er í stórfyrirtæki. Við höfum ljósast dæmi af Miklavatnsmýraráveitunni. Mjer er sagt, að alt það fje, sem eytt hefir verið til hennar, sje farið til ónýtis. Klaufalegum umbúnaði og ónógum undirbúningi er kent um.

Til að sýna fram á ónógan undirbúning þess fyrirtækis, sem nú er verið að ræða um, skal jeg að eins nefna til dæmis upplýsingarnar um það, hve nær landið muni gróa upp. Háttv. frsm. (St. St.) segir á 3—4 árum, verkfræðingurinn »með tímanum« og 2. þm. Rang. (E. J.), að það muni kann ske taka alt að 20 árum. Eftir þessu verður það nú ekki sjeð, að landssjóði komi fljótlega inntektir af verðhækkunarskatti á uppræktuðu landi, enda hefir því atriði líklega verið smeygt inn meira til þess að sýnast en að því sje trúað, að landssjóður eigi þar von á miklum tekjum. En þetta, eins og annað, er áætlana- og undirbúningslaust.

Jeg mun láta málið afskiftalaust að öðru en því, sem jeg hefi þegar tekið fram, en treysti því, að undirbúningurinn verði bættur og varlega farið. En sjálfsagt kostar fyrirtækið miklu meira en áætlað er.