23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (40)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Hákon Kristófersson:

Jeg verð að víkja svolítið að ummælum háttv. framsm. (M. P.) viðvíkjandi bátaferðum á Breiðafirði og milli Patreksfjarðar og Rauðasands. Eftir því, sem fram kom í ræðu hans, ætlast nefndin til, að það fje, sem veitt er til bátaferða, verði veitt á nafn h/f Breiðafjarðarbáturinn, og sagði hann, að það væri eftir ósk, sem komið hefði fram, um að fjeð yrði veitt á þetta sjerstaka nafn. Það leiðir nú af sjálfu sjer, að úr því að óskin er fram komin, er einhver meining á bak við, því að annars væri hún fram komin í gamni. Jeg hefi nú ástæðu til að ætla, að meiningin sje sú, að hlutafjelagið, sem á heima sunnan fjarðarins, ætli að segja við okkur, sem eigum heima fyrir norðan fjörðinn: Svona viljum við hafa það, þessar ferðir rekum við fyrir ykkur og ekki meira. Þessari fjárveitingu hefir hingað til verið skift á milli hlutafjelagsins og lítils báts, sem hefir annast ferðir milli Flateyjar-, Múla-, Gufudals,- Reykhóla- og Barðastrandarhreppa. Jeg sje enga ástæðu til að breyta þessu, nema ef vera skyldi þá, að fjelagið þættist verða undir í viðskiftunum, en svo held jeg að sje þó ekki, því að samkomulagið hefir verið heldur gott og vonandi, að svo verði einnig framvegis. Reyndar hefir stundum borið á nokkrum meiningamun, en það hefir aðallega verið frá þeirra hlið, sem nú vilja fá fjárveitinguna á sitt nafn. Það er alveg óhætt að slá því föstu, að fjelagið getur ekki, eins og staðháttum er varið á þessu svæði, annast ferðirnar, nema þá með stórum auknum kostnaði frá því sem nú er. Undanfarin ár hefir báturinn, sem frá Flatey gengur, fengið 2 þús. kr.; en þótt gera megi ráð fyrir, að hann fengi af þeim styrk, sem nú er ráðgerður, 3 þús. kr., eða rúmlega það, mundi það þó hagur fyrir hlutafjelagið Breiðafjarðarbáturinn að losna við þessar ferðir.

Reynslan hefir sýnt það, að ekki veitir af, að 2 bátar annist þessar ferðir, ef flutningaþörfinni á að verða fullnægt. Því til sönnunar skal jeg geta þess, að síðastliðið vor varð að leigja allstórt skip til að annast ferðir á sama svæði og Breiðafjarðarbáturinn gengur yfir. Það má því þakka dugnaði Guðmundar kaupm. Bergsteinssonar í Flatey, að við urðum ekki í vandræðum, þrátt fyrir Breiðafjarðarbátinn.

Þá mintist háttv. framsm. nefndarinnar (M. P.) á, að nefndin legði til, að styrkurinn til Flateyjarbátsins legðist niður, en hlutafjelagið Breiðafjarðarbáturinn annaðist ferðirnar. Það teldi jeg bæði ósanngjarnt og óheppilegt, því að varla getur komið til mála að hugsa sjer, að fjelagið legði til nógar ferðir norðan fjarðarins, þar sem samgönguþörfin er svo afarmikil. Það hagar alveg sjerstaklega til þar. Viðkomandi Rauðasandsbátnum vil jeg taka það fram, að vegna brima verða kunnugir menn að sæta færi til að komast á hafnir þær, sem um er að ræða, þegar best hentar. Það er og alkunna, að þarna eru mörg útgerðarpláss, og því vil jeg leyfa mjer að halda því fast fram, að styrkurinn verði veittur Rauðasandsbátnum alveg út af fyrir sig. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að neinar þær upplýsingar hafi komið fram, er rjettlæti það, að styrkurinn falli niður. Jeg vona því, að menn sýni þá sanngirni að halda málinu í sama horfi og háttv. samgöngumálanefnd hefir lagt til. Þótt jeg sje ekki persónulega óánægður við háttv. fjárveitinganefnd, þá ætla jeg samt að sleppa öllu þakklæti til hennar fyrir þetta tiltæki hennar.

Án þess, að jeg hafi nokkra ástæðu til að vera persónulega óánægður, þá held jeg, að jeg verði að sleppa að þakka nefndinni að þessu sinni. Að vísu get jeg verið þakklátur nokkrum hluta hennar, sem sýnt hefir verðskuldaða sanngirni.