05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 830 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi heyrt hjer í dag ýmislegt um, að þjóðin væri óánægð með dýrtíðaruppbót embættismanna. Mjer þykir þetta allmerkilegt, því að utan þings hefi jeg að eins hitt 5 menn, sem hafa verið óánægðir yfir því, að landssjóður greiddi starfsmönnum sínum uppbót, og hefi jeg þó átt tal við marga um þetta mál. Allir hafa fallist á, að rjett væri, að þessi vinnuveitandi, sem aðrir, gyldi verkamönnum sínum hærra kaup. Þegar gjaldeyrir sá, er landssjóður greiðir starfsmönnum sínum kaup þeirra í, hefir fallið svo mjög, að ekki er hægt að fá nema helming þeirra lífsnauðsynja, sem áður fengust fyrir hið sama gjald, þá sje jeg ekki betur en að þeir fái ekki lengur hið umsamda kaup.

Hestur, sem fyrir 3 árum kostaði 80 kr., er nú seldur og keyptur á 300 kr.. Það er öllum ljóst, að hesturinn hefir ekki batnað við það að bæta 3 árum við aldur sinn, heldur eru það peningarnir, sem hafa fallið í verði, og þeir eru gjaldeyririnn, sem landssjóður borgar verkamönnum sínum í, og því ekki nema sanngjarnt, að hann bæti þeim þetta verðfall upp. Það er ekki lögskipað, og þeir geta ekki stefnt landssjóði, ef hann bætir þeim ekki upp verðfallið, en það er sanngirniskrafa. Í vetur var ákveðið að veita þeim uppbót, þó ekki að öllu leyti, heldur að eins að nokkru leyti. Þeirri grundvallarreglu var þó ekki haldið, að bæta öllum jafnt upp eftir sömu prósentu, heldur var grundvallarreglan sú hin sama og farið er eftir þegar lagður er vaxandi skattur á hækkandi tekjur. Landssjóður sagði því þá við starfsmenn sína, þá er háttlaunaðir voru: »Ykkur hefi jeg farið vel með, en þá láglaunuðu hefi jeg svelt; þess vegna verð jeg nú að taka frá ykkur, til þess að geta veitt þeim 50% hækkun, því að annars fara þeir á sveitina«.

Þetta var játning um, að ranglátlega hefði verið skift verkalaununum. Þetta er því engin hjálp, heldur rjettmæt uppbót á lágu kaupgjaldi fyrir ákveðið verk.

Það kemur því ekki landssjóði við, fremur en kötturinn sjöstirninu, hve efnaður sýslunarmaðurinn er, hvort heldur hann er miljónari eða fátæklingur. Þetta eilífa stagl um framleiðslu er undarlegt, því að enginn spyr, hvort framleiðslan borgi sig, heldur er verið að fara fram á að sekta menn fyrir það, að þeir eru að reyna að bjarga sjer. Hvaða bóndi hjer á þingi heldur öðru fram en að hann skaðist í ár á framleiðslunni?

Prestar þeir, sem búa, skaðast þá líklega ekki síður. Landssjóður hefir ekki gefið þeim kýr þeirra og hesta, heldur er það þeirra eign. Hví á þá ekki að svifta þá uppbót, sem eiga peninga í sparisjóði? Þeir eru þó eins ríkir og framleiðendurnir. Eða þá, sem eiga jarðir eða húseignir eða aðrar eignir?

Þingmenn verða að gæta þess, að landssjóður á ekki eignir starfsmanna sinna, og getur því ekki talað um þær sem sína eign. Þetta tal um framleiðslu er því ekki annað en fánýtt hjal. Hjer er einungis um það að ræða, að landssjóður sem sanngjarn vinnuveitandi vilji taka þátt í þeim skaða, sem starfsmenn hans bíða við það, að gjaldeyririnn, sem hann borgar þeim í, fellur í verði. Það mætti ef til vill segja, að þeim væri borgað í svikinni mynt, úr því að landssjóður lætur gjaldeyrinn falla í verði. Það er auðsjeður hlutur, að þetta kemur alls ekki bjargráðanefnd við, því að hennar verksvið er að hjálpa fátæklingum. Ef þetta er ekki dýrtíðaruppbót, heldur dýrtíðarhjálp, þá nær engri átt að byrja á að veita embættismönnum hjálp, heldur fátæklingum, því að þeir eru þó meir hjálparþurfar. Þetta, sem hjer er um að ræða, heyrir undir fjárlögin, og er viðbót við þá grein fjárlaganna, sem tekur fram um laun embættismanna. Því heyrir málið að sjálfsögðu undir fjárveitinganefnd, eins og fjárlögin í heild sinni.

Það þýðir svo ekki að orðlengja þetta meir, því að hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) tók nægilega skýrt fram, hvernig málinu væri varið, enda þýðir ekki að ræða það meir við 1. umr. en orðið er. Jeg hefi reynt að gera ljóst, hver minn skilningur er á málinu og hver er skilningur þess meiri hluta þingsins, sem samþykti í vetur, að landssjóður skyldi taka sanngjarnan þátt í skaða þeim, er starfsmenn hans bíða af verðfalli peninganna. Það gæti heldur ekkert þing leyft sjer að óvirða alla embættismenn landsins með því, að veita þessa uppbót sem ölmusu eða fátækrastyrk og gera þá þann veg að gustukakindum.