05.07.1917
Neðri deild: 3. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 832 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg held, að rjett væri að geyma umræður um mál þetta þangað til nefnd sú, er fær það til meðferðar, hefir lokið störfum sínum, því að vel getur verið, að hún líti svo á, sem frv. þurfi umbóta við, og kippi því í lag. Jeg tel þó rjett við þessa umræðu að benda á þau atriði, er rjett væri að nefndin tæki til athugunar, og það hafa þeir háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) þegar gert.

Háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.) benti á, að rjett væri að taka tillit til ómaga þeirra, er starfsmenn landssjóðs hefðu fram að fleyta, og verð jeg að taka undir það. Þegar verið er að deila um, hvert sje eðli þessarar dýrtíðaruppbótar, hvort það sje í raun rjettri launauppbót eða hjálp, þá gleyma menn því, að í framkvæmdinni er þetta ekkert annað en hjálp. (B. J.: Það er ósatt!). Hvernig stendur þá á því, að verið er að gera uppbótina hlutfallslega hærri til lágt launuðu starfsmannanna en hinna. Eftir verðfallskenningu háttv. þm. Dala. (B. J.) ættu allir að fá jafna %. (B. J.: Jeg líkti því við skatt). Það er hjálp, fyrst og fremst til þeirra, sem lágt launaðir eru. Og úr því að komið er inn á þá braut, er sjálfsagt að hafa alla sanngirni og veita þeim hjálp, sem eru hjálparþurfar, hvort heldur það nú er háttv. þm. Dala. (B. J.) eða háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). (B. J.: Guð hjálpar okkur). Já, það vona jeg.

Þá er að minnast á framleiðendurna. Jeg vil ekki skera þá alla niður við sama trog. Þeir eru misjafnlega duglegir, eins og embættismenn yfirleitt, því að sumir þeirra standa vel í stöðu sinni, en sumir eru svo lítt hæfir, að stjórnin ætti að vera búin annaðhvort að láta þá segja af sjer, eða að setja þá af fyrir löngu. (Atvinnumálaráðherra; Hverjir eru það?). Við skulum tala um það seinna, nafni minn! Það er rjett að gera þeim, sem standa vel í stöðu sinni, hærra undir höfði, því að góðum starfsmanni er aldrei oflaunað. Jeg er viss um, að þegar hæstv. atvinnumálaráðherra var bóndi á Ysta-Felli, þá hefir hann viljað vinna til að borga góðum vinnumanni hátt kaup. Ef við hefðum valda embættismenn í hverju sæti, þá væru aldrei talin eftir laun þeirra.

Þá vil jeg benda háttv. nefnd á, hvort ekki væri rjett að taka sjerstakt tillit til þeirra, sem eiga mörg börn og altaf eru að fjölga landsmönnum. Einlægt er kvartað um skort á verkafólki, og ætti því að hlynna að þeim, sem ganga best fram í því að fjölga mannkyninu.

Einnig ætti að greiða þeim láglaunuðu embættismönnum, sem lítinn tíma hafa afgangs frá embættisverkum, hærra en hinum, sem geta haft aðra atvinnu með embætti sínu, eins og t. d. flestir prestar gera.

Um stórefnamenn er það að segja, að alþýða manna álítur það hneyksli, já, meira en hneyksli, að veita þeim dýrtíðarhjálp, hvort sem þeir hinir sömu eru í embætti eða lifa á eftirlaunum. Dýrtíðarhjálpin á ekki að vera til annars en að veita þeim hjálp til þess að lifa, sem lakast eru settir og lægst eru launaðir.

Menn eru altaf að vitna í stórgróða, sem ýmsir framleiðendur eiga að hafa haft á síðustu árum. Allur þorri framleiðenda græddi árið 1915. Miklu færri gerðu það árið 1916, og þá líka miklu minna. Hve margir bændur ætli að græði nú 1917, þegar framleiðslan er orðin því nær ókleif, því að vinnukrafturinn er bæði nærri ófáanlegur og afskaplega dýr. Jeg vil því segja, að embættismönnum er ekki ofgott að sitja við sama borð og almenningur.

Jeg vona, að nefndin, sem fær frumvarpið til meðferðar, athugi málið vel, og breyti því í þá átt, sem hjer hefir verið bent á.