06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Magnús Pjetursson:

Jeg bjóst ekki við að þurfa að eiga í orðaskaki út at þessu máli nú við þessa umr. En það voru nokkur orð í ræðu háttv. 2. þm. N.-M. (Þorst. J.), sem jeg vildi gera athugasemd við. Mjer þykir leitt, að hann er nú ekki viðstaddur. En af því, að ef til vill margir meina hið sama og hann sagði, þá vil jeg mótmæla því, að öll þjóðin í heild sinni sje óánægð með ráðstöfun aukaþingsins, eins og hann hjelt fram. Menn geta sannfærst um þetta með því að fara fram á lestrarsal og kynna sjer þar þingmálafundagerðirnar. (P. Þ: Úr Strandasýslu?). Strandamenn hafa eins mikinn rjett til að segja sína skoðun á þessu máli og Mýramenn, og engu síður mikils virði það, sem þeir leggja til. Á tveimur þingmálafundum, af þremur, í Strandasýslu var samþykt að leggja til, að Alþ. veitti dýrtíðaruppbót með líku fyrirkomulagi og í fyrra. Á þriðja fundinum var samþykt samskonar tillaga, þó með þeirri viðbót, að sanngjarnt væri, að þeir, sem hafa tekjur af framleiðslu, fengju ekki jafna dýrtíðaruppbót Annars ættu menn að kynna sjer þingmálafundagerðirnar, og yfirhöfuð koma ekki fram með rakalitlar staðhæfingar rannsóknarlaust; þá mundi það koma í ljós, að það er ekki rjett, að þjóðin í heild sinni sje mótfallin dýrtíðaruppbót til embættismanna, eins og henni var hagað á síðasta þingi. Mjer virtust menn kenna nefndinni um flaustrið á málinu í vetur. Jeg verð að segja það, að jeg áleit þá málinu of mjög flaustrað. En það er nokkuð skrítið að heyra þá menn tala nú um flaustur, er greiddu atkv. með afbrigðum frá þingsköpunum, til þess að koma flaustrinu áfram. Þeir mega sannarlega sjálfum sjer um kenna, og ættu nú ekki að hafa í hámælum álas um sínar eigin gerðir.

Annað, sem jeg vildi mótmæla, er ölmusu- eða fátækrastyrks-nafnið, er margir vilja óðir og uppvægir koma á dýrtíðaruppbótina. Það er vitanlega rjett, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) tók fram, að hjer er verið að bæta mönnum þá rýrnun á kaupgjaldi sínu, er leiðir af verðfalli peninganna, Ef svo er ekki, þá er ekki rjett að byrja á því að hjálpa þessum stjettum; þá á enga uppbót að veita þeim.

Það er náttúrlega alveg satt, að hjer verður að fara varlega í útgjöldin, því að útlitið er ilt og fjárhagurinn slæmur. Í vetur var líka reynt að taka tillit til þessa. Dýrtíðaruppbótin var ekki nálægt því miðuð við verðfall peninganna, eins og það var í raun og veru. Það var auðvitað miklu meira en dýrtíðaruppbótin nam. Og var þetta einmitt af þeirri ástæðu, að landssjóður var ekki álitinn fær um að bæta upp alt verðfallið, en ekki af hinu, að það álitist ekki rjett. Þótt hjer sje því ekki um fulla uppbót að ræða, þarf ekki að fara ranglega að. Jeg vil, að grundvöllurinn sje rjettur, og ekki teknir undan einstakir menn eða stjettir. Mjer hefir yfirleitt fundist þeir, sem jeg hefi talað við, skilja, að það er sanngirniskrafa, að þessi uppbót sje veitt. Flestir líta svo á, að kauphækkun þeirra, sem vinna hjá einstökum mönnum, sje dýrtíðaruppbót, og það kæmi þá óneitanlega kynlega fyrir sjónir, ef hver einstakur vinnuveitandi veitti dýrtíðaruppbót, en allir sameinaðir í einn vinnuveitanda veittu enga. Sá er munurinn, að fólk, sem ræður sig til vinnu einhvern vissan tíma, getur sett hnefann í borðið og neitað að vinna, en vjer starfsmenn landssjóðs, margir að minsta kosti, erum ver settir, og ekki eins við búnir að setja hnefann í borðið, ef oss er órjettur ger. En það ímynda jeg mjer, að háttv. þm. sjái, að ekki er rjett nje sanngjarnt, að margir leggi mikið í kostnað til að geta tekið að sjer víst starf, og verði síðan neyddir til að sitja við hvaða ranglæti sem vera skal. Þetta er sannarlega mikið alvörumál og þarf kalda og rækilega yfirvegun. Sjerstaklega vil jeg vara við þeirri hættu, sem hjer hefir viljað brydda á. En það er að gera þetta mál að tilfinningamáli. Það getur dregið þann dilk á eftir sjer að vekja upp aftur óánægju og kala milli vissra stjetta, sem mikið var farinn að minka, og væri það illa farið. Mjer er óhætt að segja, að mörgum hlutaðeigendum er þetta ekki eingöngu fjárspursmál, heldur hitt, að þeir finni viðurkenningu þess, að húsbóndi þeirra sje eins rjettlátur og þeir sjá að aðrir húsbændur eru. Með því að jeg býst ekki við að komast hjá því að taka til máls síðar í þessu máli, læt jeg hjer staðar numið. Mjer er ekkert kappsmál um, hvaða nefnd fái málið til meðferðar, en finst það þó heyra frekar undir fjárveitinganefnd.