06.07.1917
Neðri deild: 4. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Skúli Thoroddsen:

Jeg skal ekki vera langorður.

Hjer hefir orðið nokkur ágreiningur um það, í hverja nefnd beri að vísa þessu máli. Það hefir verið lagt til, að því verði vísað til bjargráðanefndar. En þetta er stórmikill misskilningur á verksviði nefndanna, eins og hv. þm. Dala. (B. J.) og háttv. þm. Stranda. (M. P.) hafa þegar sýnt. Verksvið bjargráðanefndar snýr út á við, lýtur að viðskiftum vorum við aðrar þjóðir, en uppbótarmálið snýr að oss sjálfum, veit inn á við, ræðir um það, hvert kaup menn fá eða eiga skilið, og heyrir því í eðli sínu beint undir fjárveitinganefnd, alveg eins og bert er af einstökum greinum fjárlaganna, sem tiltaka ákveðin laun starfsmanna landsins, líkt og háttv. þm. Dala. (B. J.) tók fram.

Mjer mundi hafa þótt vel við eiga, að takmarkið við þessa 1. umr. málsins hefði verið það að gefa væntanlegri nefnd einhverjar leiðbeiningar í meðferð þessa máls; en því fer fjarri, að svo hafi verið. Umræðurnar hafa aðallega hnigið að því, hvort hjer sje um hjálp eða launabót að ræða. Hv. þm. Stranda. (M. P.) og hv. þm. Dala. (B. J.) hafa þegar rækilega hrakið þær ástæður, sem fram hafa komið um það, að hjer sje um hjálp að ræða.

Það mun hafa verið hv. 1. þm. Reykv. (J. B.), sem fyrstur kom með þetta hjálparhjal, og færði fram mjög hlægilega ástæðu fyrir því, að hjer væri að eins um hjálp að ræða. Hann sagði sem sje, að fyrst að öllum væri ekki goldið jafnt, þá væri þetta gjöf. Eftir því væri það gjöf, ef jeg greiddi háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) upp í 100 kr. skuld, sem hann ætti hjá mjer, 50 kr. Fyr má nú vera firra.

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) mintist á efnahag manna og vildi láta hafa hliðsjón á framleiðslu manna, ætlaðist til, að framleiðendur, þeir er embættum gegndu, hlytu þá lægri uppbót. Mælti hann þetta einkanlega til presta. Annars vegar taldi hann þó bændur verða nú fyrir miklum fjárhalla. Röksemdaleiðsla þessa háttv. þm. (S. S ) er þá sú, að allir bændur tapi, nema þeir bændur, sem einnig eru prestar, og sjá allir, hve veigamikið þvílíkt skraf er. En sannleikurinn er sá, að þótt menn vildu hafa hliðsjón af efnahag manna og framleiðslu við ákvörðun uppbótarinnar, þá er það allsendis ókleift in praxi, eins og líka hitt, sem sumir hafa bent á, að miða uppbótina við ómagafjölda. Hvernig á t. d. að fá vitneskju um innstæðu manna í bönkum og sparisjóðum eða ársgróða þeirra, sem framleiðendur eru? Jeg veit ekki betur en að allir bændur, sem skrifað hafa í blöð undanfarin ár, hafi — hver og einn — þóst tapa á búskapnum þessi ár.

Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) taldi óþarft að hafa uppbótina nú jafnháa og í vetur, með því að hún væri nýlega greidd. Þetta er mjög undarleg rökfærsla. Háttv. þm. (E. Árna.) má vita það, að hver, sem vill lifa, og ekki hefir peninga til þess, neyðist til að taka lán. Honum má skiljast það, að menn, sem búa við sultarlaun, höfðu fyrirfram eytt uppbótinni, fengið lán upp á hana.

Sami háttv. þm. (E Árna.) sagði, að svo gæti komið, að vjer yrðum neyddir til þess að taka lán, til þess að greiða þessa uppbót, og var honum illa við það, eins og mjer er líka. En þótt svo færi, þá er hjer ekki um lán að ræða til þess að eta upp, eins og hann komst að orði. Ef þessi háttv. þm. (E. Árna.) getur ekki greitt vinnumanni sínum kaupgjald, verður hann að taka lán til þess, en það er ekki sama sem að eta lánið upp. Og alveg hliðstætt þessu er samband landsins við starfsmenn sína.

Sami hv. þm. (E. Árna.) sagði enn fremur, að atvinna væri næg hjer á landi og kaup hátt, en ef þetta er rjett, þá bendir það heldur á blómlegan hag landsins og á það, að landið standi svo vel að vígi, að enginn nauður reki til þess að draga af starfsmönnum þess rjettlátleg laun. Nú er svo komið, eftir því sem mjer hefir verið sagt, að hreppstjórinn á Tjörnesi, sem hefir verkstjórn á hendi við námana þar, fær 15 kr. í kaup á dag, en óvaldir verkamenn fá 6 kr. á dag. Þetta má bera saman við kjör þau, sem margir embættismenn njóta, menn, sem árum saman hafa kostað sig til náms, til þess að verða færir um að takast á hendur ákveðna stöðu. Háttv. 2. þm. Eyf. (E. Árna.) sagði, að ekki sæi á, að embættismenn byggju við sultarlaun, því að jafnan væri fjöldi umsókna, ef einhver staða losnaði. Þetta ætti þó ekki að þykja undarlegt; hvað eiga menn að gera annað en það, sem þeir hafa lært og kunna, meðan þess er nokkur kostur?

Það væri sjálfsagt margt fleira, sem rjett væri að taka fram í sambandi við þetta mál, þótt jeg sleppi því nú. En jeg get ekki varist því að drepa á það, að alla tíð síðan jeg hefi verið riðinn við Alþingi, frá því að jeg varð fyrst þingskrifari, hefir kveðið við þessi sami sónn úr sömu sætum þessarar deildar, bændaþingmannasætum, sífeldur barlómur um bágborinn hag landssjóðs, landsins og bændastjettarinnar. Þetta er þeim mun kynlegra, sem þetta heyrist ekki nefnt á nafn úti um landið. Í för minni vestur í kjördæmi mitt nýlega andæfði enginn uppbót til starfsmanna landsins, og ekki hefi jeg heldur sjeð nein slík andmæli í þingmálafundargerðum þeim, sem lagðar hafa verið fram hjer á lestrarsalnum. Jeg held því, að það sje engan veginn þægt verk, sem þeir háttv. þm vinna, sem enn halda uppi þessum gamla barlómi; hann ætti að vera genginn úr móð og mætti helst ekki heyrast lengur, enda er öllum almenningi farið að skiljast, að starfsmenn landsins eiga laun sín skilið og að þeim verður að greiða sómasamlega eða að minsta kosti lífvænlega.