07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 855 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Ottesen:

Um þetta mál eru nú þegar orðnar æðimiklar umræður, og þótt naumast sje við bætandi, get jeg ekki komist hjá því að segja nokkur orð.

Fordæmi það, sem aukaþingið í vetur skapaði, með því, hve langt það gekk í dýrtíðaruppbótinni, var ilt, og naumast annars að vænta, enda hefir dýrtíðaruppbótin vakið megna gremju um land alt, og er sú gremja síst ástæðulaus. Frv. það um dýrtíðaruppbót til embættismanna landsins, sem stjórnin leggur nú fyrir þingið, er að ýmsu frábrugðið þingsályktunartillögunni í vetur. Er auðsjeð, að stjórninni hefir ofboðið upphæðin, og að hún hefir leitast við að draga úr henni á ýmsan hátt, en álitamál getur verið, hvort hún hefir hitt heppilegustu leiðina til þess.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hjelt því fast fram, að ekki bæri að taka tillit til annars í þessu sambandi en launahæðarinnar. Þar virðist mjer hann vera á annari skoðun en á síðasta þingi. Verð jeg að segja honum það til maklegs lofs, að þá var hann svo sanngjarn að greiða atkvæði með viðaukatillögu, sem stefndi að því að veita frekar hjálp þeim, sem helst væru hjálparþurfar. Sakna jeg þess mjög, að stjórnin skyldi ekki reyna að móta frv. þetta í þá stefnu.

Jeg skal ekki þrátta mikið um, hvort þetta beri að kalla dýrtíðaruppbót eða dýrtíðarhjálp. En öll meðferð hinnar hásælu fjárveitinganefndar á málinu í vetur virðist fremur benda á, að það sje dýrtíðarhjálp. Hún gerði sem sje mismun á háum og lágum launum og gekk algerlega fram hjá þeim, sem hæst voru launaðir. Tillögur hennar voru því reistar á sama grundvelli og viðaukatillagan, sem jeg gat um áðan. Má í þessu sambandi benda á það, að launahæðin ein er ekki rjettur grundvöllur til að byggja á. Mörg þeirra embætta, sem hæst eru launuð, eru til orðin á síðustu árum, þegar peningar voru farnir að falla í verði, og launahæðin miðuð við það. En þeim mönnum, sem þessi embætti skipa, hefir verið ætluð jöfn dýrtíðaruppbót og hinum, sem við eldri launakjör eiga að búa. Það hefir verið bent á, að það ætti að sníða kröfur embættismannanna eftir þörfum þeirra og með tilliti til ástandsins í landinu og kjara alþýðunnar. En þessa hefir ekki verið gætt sem skyldi. Það hefir ekki verið tekið tillit til þess, í þessu frv., hvort þeir, sem njóta dýrtíðaruppbótar, eru einhleypir menn eða fjölskyldumenn, eða hvort þeir hafa nokkrar aukatekjur, t. d. framleiðslu til lands eða sjávar. Um sveitaprestana er það að segja, að þeir sitja jafnan á bestu jörðunum, sem það opinbera leggur þeim til — því að kirkjuvaldið á miðöldunum, þegar það var að sölsa undir sig jarðeignirnar, sleikti vanalega rjómann ofan af — og geta sint búskapnum frátafalítið. Þessir menn standa því miklu betur að vígi en aðrir búendur til að njóta hags af búskapnum, ef um hag er að ræða. Auk þess fá prestar nokkra uppbót úr annari átt, því að aukaverk sín fá þeir borguð eftir verðlagsskrá, sem nú er helmingi hærri en fyrir stríðið, og er það allverulegt atriði í fólksmörgum prestaköllum, en þeir háu herrar, sem hrópa hjer hæst um þröngsýni þeirra manna, sem halda vilja dálítið í hemilinn á fjáraustrinum í þessa óseðjandi dýrtíðarhít, minnast ekki á þetta eða því um líkt. Og um lækna er það að segja, að þótt þeir hafi ekki nema 1500 kr. föst árslaun, þá hafa þeir sumir miklar, en aðrir mjög miklar aukatekjur, eftir því sem þeir eru menn til og njóta trausts fólksins. Það er þess vegna engin furða, þó að það hafi sett ilt blóð í alþýðu þessa lands, sem verður að neita sjer um öll þægindi og klífa þrítugan hamarinn til að gjalda lögboðin gjöld, og ekki nema eðlilegt, að mönnum hafi runnið til rifja að sjá klyfjar peninga reiddar til stórefnamanna, sem standa miklu betur að vígi í baráttu lífsins heldur en öll alþýða manna. Það mælir og engin sanngirni með því, á nokkurn hátt, að bera fje úr landssjóði á neyðartímum til manna, sem embættin hafa farið svo vel með, að þeir eru, þrátt fyrir breytinguna, sem á er orðin, vel stæðir í mannfjelaginu og eiga við góðan hag að búa. Eins og þjóðin hefir skyldur við embættismennina, eins hafa þeir skyldur gagnvart þjóðinni. Þeir eiga að spara þegar þröngt er í þjóðarbúinu, og verða að sætta sig við að taka þátt í kjörum alþýðunnar, þegar illa gengur. Það hafa nú ýmsir þeirra, sem greiddu atkvæði með dýrtíðaruppbótinni í vetur, látið í ljós, að þeir mundu nú fara varlegar, og gleður það mig og jeg er þess fullviss, að það verður hægt að finna þá leið í þessu máli, sem allir sanngjarnir menn mega vel við una.

Háttv. þm. Stranda (M. P.) mintist á, að þessi mótstaða vekti kala hjá embættismönnum til alþýðunnar. Það má alveg eins snúa setningunni við og segja, að það hafi vakið kala alþýðunnar til embættismanna, hvernig einstakir menn knúðu þetta mál fram í vetur.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði í gær, að hann öfundaði ekki þá þingmenn, sem í vetur greiddu atkvæði með dýrtíðarhjálpinni, af að mæta kjósendum sínum, ef þetta ætti að heita hjálp. Með þessu hefir hann víst ætlað að negla þá við frv., en jeg verð að telja það vafasamt, hvort það tekst.

Jeg vænti þess fastlega, að nú verði farið gætilega og reynt, svo sem kostur er á, að sníða dýrtíðaruppbótina eftir þörfum manna, og það sönnum þörfum. Jeg veit nokkur dæmi þess, að menn, sem fengu dýrtíðaruppbót í vetur, urðu öldungis hissa og vissu naumast, hvaðan á sig stóð veðrið, og sessunautur minn, háttv. 2. þm. Rang. (E. J.) skýtur því að mjer, að sumir hafi verið svo veglyndir að þiggja ekki uppbótina.