07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 861 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Stefán Stefánsson:

Eftir þeim umræðum, sem fallið hafa um dýrtíðaruppbótina frá síðasta þingi, þá eru allskiftar skoðanir, hvernig á hana hefir verið litið af öllum almenningi. En jafnvel þótt þetta sje ekki neitt aðalatriði í málinu, gagnvart afstöðu hinna einstöku þingmanna, þá vil jeg þó taka það fram, að eftir því, sem jeg hefi kynt mjer það mál, þá dylst mjer ekki, að almenningur muni yfirleitt vera óánægður með úrslit þessa máls á aukaþinginu. Þetta verð jeg að viðurkenna, eins fyrir það, þótt jeg væri málinu fylgjandi. (G. Sv.: Þeir samþyktu vantraust þarna í Eyjafjarðarsýslu). Sú saga er einber tilbúningur. Að menn voru óánægðir yfir dýrtíðaruppbótinni var aðallega af því, að hún fjell eins til ýmsra framleiðenda, eins á þá, er gátu lagt uppbótina á vöxtu, og hina, er þurftu hennar, til að afla óumflýjanlegra nauðsynja. Af þessu er almenningur óánægður. Hvað mitt kjördæmi snertir, eru þar sárafáir á móti málinu í sjálfu sjer. Meira að segja, þeir, sem ljetu mest bera á óánægju yfir uppbótinni, að loknu þingi í vetur, komu á þingmálafundi nú í vor fram með tillögu um að veita þó aftur dýrtíðaruppbót, en eftir öðrum reglum.

Þetta sýnir, að yfirleitt eru menn ekki óánægðir með, að dýrtíðaruppbót var veitt, heldur yfir því, hvernig hún kom niður; með öðrum orðum, að ekki var gætt fullrar sanngirni í útbýtingunni. Þetta er sjáanlega afarerfitt, og eitt hið vandasamasta, sem fyrir þinginu liggur nú, að ganga svo frá þessu máli, að allir megi vel við una. Jeg álít ekki sanngjarnt að neita alveg um uppbótina, og mun fylgja því, er mjer finst sanngjarnast og rjettast í málinu.

Annars var það illa farið, að okkar fjögra manna tillaga var feld á aukaþinginu síðastliðinn vetur, og það vil jeg segja, að fyrir þá meðferð háttv. Ed. á málinu átti hún ekki annað skilið af hálfu Nd. en að málið hefði verið algerlega felt. Það hefði óefað verið vandaminna fyrir þing og stjórn, að samþykt hefði verið jafnt hundraðsgjald af öllum launum, eins og sumir háttv. þm. virðast álíta að hefði verið það eina rjetta, því að hjer sje að eins á það að líta, að launin hækka í sama hlutfalli til hvers starfsmanns og verðið á nauðsynjavörum hækkar. En það var vafalaust sanngjarnari leið, sem tekin var, að hafa nokkru hærri uppbót af lægri launum en hinum hærri.

Frá þessari sanngirnishlið leit jeg á málið, og þess vegna greiddi jeg atkv. með því. Annars vegar var mjer það ljóst, að allmargir embættismenn höfðu ekki annað að lifa af en launin, sem nú fjellu í verði, eða náðu skemra en áður sem borgunareyrir, en hins vegar, að framleiðendum græddist fje á sínum atvinnurekstri, og einnig það, að landssjóður hafði fengið ríflegan tekjuauka af verðhækkunarskattinum. Þegar því starfsmenn hins opinbera gátu ekki lifað af þeim ákveðnu launum, fanst mjer sjálfsögð skylda að ganga ekki með öllu framhjá eðlilegum kröfum þeirra. Það yrði að leggja aðaláhersluna á þessa sanngirnishlið málsins. En nú lítur nokkuð öðruvísi út. Þjóðin stórtapar, og hver einstaklingur lítur með kvíða til framtíðarinnar. Þegar svo er komið, er það mjög mikið álitamál, hversu mikið skuli að því gert að borga fram yfir það, sem er lögákveðið. Eða er ekki rjett, að þeir, sem vinna fyrir þjóðfjelagið, líði með því? Þegar jeg lít á ástandið nú, finst mjer, að stjórnin hafi, þótt hún hafi farið gætilegar en jeg hafði búist við, þó gengið svo langt, að jeg geti naumast fylgt henni að málum. Jeg þarf t. d. að fá góða skýringu á því, að þeir, sem hafa 5000 kr. í laun, þurfi beint uppbótar við. Ef hægt er að leiða gild rök að því, fæ jeg ekki sjeð, hvernig bændur í sveit, eða annars allur almenningur, getur lifað af framleiðslu sinni eða atvinnu. Líka vil jeg taka það fram, að 50% uppbót á t. d. 800—1000 kr. er í mörgum tilfellum algerlega rangt, því að maður með svo lágum launum hefir ekki landssjóðsstarfið að aðalstarfi. Hann er þá að litlu leyti starfsmaður landssjóðs, og á því að sama skapi minni rjett til uppbótar frá honum.

Að öðru leyti mun jeg með atkvæði mínu sýna, hve langt jeg get fylgt þessu máli, en frá þessari afstöðu minni vildi jeg skýra, áður en málið færi í nefnd.