07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Sigurður Sigurðsson:

Jeg bað um orðið, ekki til þess að lengja umræðurnar, heldur af því, að það er ómannlegt að liggja undir höggum annara, án þess að hrinda þeim af sjer.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) þrætti ákaft fyrir það í gær, að þessi dýrtíðaruppbót væri dýrtíðarhjálp. Við getum auðvitað þrætt um það til eilífðar, hvort þetta er hjálp eða uppbót, líkt og kerlingarnar, sem sögðu: »Klipt er það, skorið er það«. En hann bætti því við, að ef þetta væri dýrtíðarhjálp, þá hefði þingið í vetur farið ranglega að ráði sínu, að láta ekki aðrar stjettir en embættismennina fá svipaða hjálp. En hjer við er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi kom dýrtíðin 1915 og 1916 ekki jafnhart niður á öðrum stjettum, vegna þess, að afurðir landsins seldust með mun hærra verði en framleiðslukostnaði nam. Framleiðslustjettirnar stóðu því betur að vígi að því sinni og jafnvel græddu á þessum tíma. Í öðru lagi var það embættismannastjettin, sem bar sig upp undan dýrtíðinni og krafðist hjálpar. Þeir fyltu blöð og tímarit með skrifum um þetta efni, og inn á aukaþingið rigndi bænaskrám frá þessari stjett. Þessar ástæður lágu að því, að hjálpin var veitt þessari stjett, en ekki öðrum.

En síðan hafa tímarnir mjög breyst, ekki að eins að því leyti, að dýrtíðin eykst stöðugt, bæði fyrir embættismenn og aðra, heldur bætist það nú ofan á, að menn eiga fult í fangi með það, að framleiðslan beri sig, eða að standast þann kostnað, sem hún hefir í för með sjer. Þetta gerir mikinn mismun, svo mikinn, að allir eru nú að verða jafnir fyrir dýrtíðinni, bæði framleiðendur og embættismenn.

Það er nú ekki meining mín að dæma alla dýrtíðaruppbót niður fyrir allar hellur. Það, sem skilur, er það, að jeg og ýmsir fleiri vilja fara meðalveg, en aðrir vilja fara lengra en góðu hófi gegnir. Það verður auðvitað erfitt að komast að fastri niðurstöðu um þetta. Mjer hefir dottið í hug einn vegur, sem jeg þó geri ekki að tillögu minni, heldur að eins skýt fram til athugunar. Hann er sá að veita stjórninni ákveðna upphæð, sem hún svo útbýtir eftir þeim mælikvarða, sem henni þykir heppilegastur. Það er vitanlegt, að bæði ber frv. það með sjer, og allir ganga út frá því, að uppbótin standi ekki í hlutfalli við launin. Þeir, sem lágt eru launaðir, þurfa uppbótarinnar fremur en hinir. Það skilja allir.

Jeg skal ekki fara út í þingmálafundargerðir. Það getur verið, að þær veiti ekki ábyggilega undirstöðu um vilja manna um þetta atriði. En það verð jeg að telja ósvífni hjá háttv. þingm. Stranda. (M. P.) að segja, að engin óánægja hafi risið út af uppbótinni í vetur. (Sk. Th.: Óánægjan var vakin af andstæðingum frv.). Nei, þegar menn fóru að athuga málið, sáu menn, að ekkert vit var í gerðum þingsins.

Jeg geri ráð fyrir því, að allir þingmenn vilji veita einhverja uppbót, og styðjast þar við vilja almennings. En vjer, sem hóflega viljum fara, sneiðum hjá því að kveikja óvildarhug til embættismanna hjá almenningi. Þeir, sem skara að eldinum og öfundsýkinni, eru einmitt þeir, sem taka munninn fylstan og heimta fulla dýrtíðaruppbót handa öllum embættismönnum. Það eru þeir, sem hafa leitt asnann inn í herbúðirnar, svo að jeg taki mjer í munn orð háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.).

Annars geta þeir menn hrópað hátt, sem aldrei hafa þurft neitt fyrir lífinu að hafa, sem bornir hafa verið fram á örmum góðra foreldra og aldrei hafa komið inn í hreysi fátæklinganna, og þekkja því ekki, við hvaða kjör þeir verða að búa. Þeir mega frómt úr flokki tala!