07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (439)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Þórðarson:

Það er svo að heyra á ýmsum háttv. þm., sem þingvanir eru, að helst til mikið sje nú rætt um þetta mál við 1. umr. þess, en jeg held, að það sje málinu holt, að það sje skoðað frá sem flestum hliðum og að sem flestar raddir láti til sín heyra um það, er komið getur til athugunar fyrir nefnd þá, er nú fær það til meðferðar.

Jeg ætla ekki að segja mikið, og skal reyna að endurtaka ekki neitt af því, er sagt hefir verið. Að jeg bað mjer hljóðs kom til af því, að jeg vildi vekja athygli á einu atriði, sem stendur í nánu sambandi við þetta mál, en enginn hefir enn orðið til þess að minnast á. Þetta er um framkvæmd stjórnarinnar á útborgun dýrtíðaruppbótarinnar samkvæmt þingsályktunartill. þeirri, er samþ. var hjer á aukaþinginu í vetur. Jeg hefi dálítið athugað skýrslu stjórnarinnar um þetta og held, að ýmsum smálaunamönnum sje vanborguð dýrtíðaruppbót, eftir því sem jeg skil þá till.; en síst er mjer nú í hug að sakast um þetta, og býst ekki við, að þingið geri það heldur, og því síður, sem jeg veit ekki til, að nokkur hafi kvartað. En aftur á móti hefir einum flokki embættismanna verið greidd dýrtíðaruppbót þannig, að frá samanlögðum launum og aukatekjum þeirra af embættinu hefir verið dreginn kostnaður við að reka embættið og uppbót reiknuð af mismuninum. Jeg get ekki sjeð, að í þingsáltill. eða á bak við hana felist nokkur heimild til slíks. Það eru sýslumenn landsins, 15 að tölu, sem hjer eiga hlut að máli, og ef kostnaður við embættisreksturinn hefði ekki verið frá dreginn, þá mundu sumir (5) enga dýrtíðaruppbót hafa fengið, en hinir allir miklum mun minna en þeir hafa fengið. Þótt mjer virðist hjer hafa verið gengið feti framar en þingsáltill. heimilar, þá var mjer nú ekki í hug að gera mikið veður úr þessu.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) sagði áðan, að stjórnin óskaði, að svo yrði frá þessu máli gengið, að hún þyrfti ekki að vera í vafa um, hverjum og hve mikla dýrtíðaruppbót ætti að greiða. Þetta er sjálfsagt og ekki þýðingarlítið atriði. Jeg hugsa, að frv. það, sem hjer liggur fyrir, nái fram að ganga í einhverri mynd, og þess vegna hefi jeg minst á þetta, til athugunar fyrir nefnd þá, er málið fær til meðferðar.

Sumir hafa minst á þjóðarviljann í þessu máli. Að svo miklu leyti sem þjóðin sækir þingmálafundi, má sjá vilja hennar af gerðum þeirra. Af 40 þingmálafundargerðum, sem hjer liggja frammi, hafa 20 látið í ljós með ýmsu orðalagi, að þeir væru mótfallnir dýrtíðaruppbót í því formi, sem samþykt var á aukaþinginu í vetur, þótt sumir fari vægum orðum um. 17 hafa ekki minst á það, en 3 hafa látið í ljós, að sanngjarnt væri að fara sömu leið sem þingið í vetur. Af þessum 3 voru 2 í Strandasýslu, eins og háttv. þm. Stranda. (M. P.) hefir vikið að, en 3. fundurinn var á Akureyri. Jeg hygg nú, að ekki sje tiltakanlega mikill munur á þeim, sem látið hafa í ljós óánægju, og þeim, sem látið hafa málið afskiftalaust.

Viðvíkjandi grundvallaratriðinu get jeg ekki verið háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) samdóma, því að hann hefir haldið því fram, að hjer lægi til grundvallar launaviðbót í lögunum, er gerði það lagalega rjett, að öll laun væru bætt upp með sama hundraðsgjaldi, vegna dýrtíðarinnar og verðfalls peninganna. Jeg get ekki verið alveg á þessari skoðan. Man ekki til, að í löggjöfinni sje neitt ákvæði um að breyta launakjörum embættismanna, þótt gjaldeyrir falli. Það er svo alment í viðskiftum, að ekki tjáir að kvarta, þótt keyptur sje hlutur, sem síðan fellur í verði. Embættismönnum er frjálst að hafna embættunum, ef þeim líkar ekki launin; þeir geta reynt að semja, og ekkert frekar. Þess vegna kemur einum embættismanni ekki við, þótt breytt sje launakjörum annars embættismanns, Jeg skal ekki orðlengja þetta frekar og læt mig litlu skifta, til hvaða nefndar málið fer.