23.08.1917
Neðri deild: 41. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Framsm. fjárveitinganefndar (Magnús Pjetursson):

Jeg skal reyna að vera stuttorður og gefa ekki tilefni til, að fleiri fari af stað á eftir. Fyrst er þá fyrirspurn háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) um það, hvernig ætti að skilja orð mín um ástæðuna til launahækkunar hagstofustjórans. Hvort það væri gert með það fyrir augum, að hagstofustjórinn eigi að vera jafnrjetthár skrifstofustjórunum í stjórnarráðinu. Jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að það væri að nokkru leyti með tilliti til þessarar kröfu hans, en að nokkru leyti með tilliti til hans persónulegu hæfileika, sem nefndin bar fram brtt.

Þá kem jeg að háttv. fjármálaráðh. (B. K.). Mjer þykir vænt um að finna, að það er heldur að ganga saman með honum og nefndinni, svo að ekki virðist vera eins langt í milli nú, eins og í byrjun umræðunnar. Virðist hann nú að mestu genginn frá því, sem hann áður hefir haldið fram, og vona jeg, að háttv. deild hafi tekið eftir því. Hann talaði um, að hann hefði sjerstaklega átt við vegafjeð, í aðfinslum sínum við nefndina, en jeg fyrir mitt leyti skildi ekki orð hans svo, heldur að hann ætti við tillögur nefndarinnar yfir höfuð, enda gat varla verið um það að villast, því að öðrum kosti gat hann ekki talað um stefnu stjórnarinnar. Það er misskilningur, að nefndin þurfi nokkuð frekar að afsaka ummæli sín um áætlanir stjórnarinnar, þótt vitnað sje til annara nefnda. Þá hefði staðið næst að vita þær nefndir líka. (Fjármálaráðherra (B. K.): Þær hafa ekki viðhaft svipuð orð).

Bæði fjárhagsnefnd og samvinnunefnd samgöngumála hafa komist að sömu niðurstöðu um áætlanir stjórnarinnar.

Jeg verð að halda því fram, sem jeg hefi áður sagt, að flestar brtt. nefndarinnar við þennan kafla sjeu nauðsynlegar til lögmæltra útgjalda, og að þessar 400,000 kr., sem jeg nefndi í minni fyrstu ræðu, sjeu því að minsta kosti óhjákvæmilegur útgjaldaauki. Jeg vil leggja það undir dóm háttv. deildar, hvort nokkrum geti dottið í hug, að hægt verði að komast hjá að greiða þær upphæðir, t. d. til spítalanna, sem nefndin fer fram á.

Það getur verið satt og rjett, sem hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) sagði, að nefndin hefði fyrst og fremst átt að líta á tekjurnar. Það er sjálfsagt að hafa þær fyrir augum. En jeg veit ekki, hvernig nefndin átti að fara að ráði sínu í því að sníða stakkinn eftir tekjuáætlun, jafnvel þótt hún hefði haldið sjer við áætlun stjórnarinnar, hvað þá fjárhagsnefndar, sem stjórnin þó nú hefir viðurkent að væri á rjettum rökum bygð.

Jeg skal ekki fara út í nein smáatriði, enda er þess ekki þörf, með því að hæstv. fjármálaráðh. (B. K.) er nú kominn ofan af flestu, sem hann hjelt fram áður.

Um styrkinn til Kjósarhrepps vildi hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) geta þess til, að annað mundi nefndinni hafa gengið til en að koma samræmi á slíkar fjárveitingar. Þetta er ekki rjett. Jeg vil benda á það, að einmitt á þingi 1915 var feld brtt. um þennan styrk. En að nefndin sje sjálf komin út á hálan ís, eins og hann sagði, með öðrum brtt. sínum, er væru þessari ósamræmar, er ekki rjett. Ef hann á hjer við styrkinn til Flateyjarhrepps, þá er hjer um alt annað að ræða, með því að styrkurinn er veittur vegna sjóleiðarinnar.

En jeg vissi það ekki fyr en nú, að Kjósarmenn sæktu lækni sjóveg, hafði haldið, að þeir gerðu það landveg, en það getur verið nú orðið, af þessari sömu ástæðu, að þeir treystist ekki til þess að flytja lækninn öðru vísi, vegna þyngsla. En ef hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) á við hækkun styrksins til Bolungavíkur, þá er það ekki sambærilegt, vegna þess, að þeir hafa fengið lækni, sem þeir geta ekki haldið, nema þeir láti hann fá laun, og því þurfa þeir hækkaðan styrk. Ef svo væri ástatt með Kjósarmenn, þá væri alt öðru máli að gegna. Jeg fyrir mitt leyti skyldi, hve nær sem væri, vera með styrk til þeirra, bornum fram í þeirri mynd, að þeir gætu haldið kyrrum lækni, sem sest hefði þar að.

Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) skoraði á nefndina að muna eftir útlitinu nú, og margtók það upp. Jeg tek undir með honum í því. En jeg verð að segja það, að ef stærstu brtt. nefndarinnar ná ekki fram að ganga, þá er það af því, að háttv. þingdm. líta ekki á, hvernig horfurnar eru nú.

Hann sagði enn fremur, að það væri ekki af vantrausti á verkfræðingunum, að hann vildi láta gera nýja áætlun um Jökulsárbrúna, með því að þeir hefðu gert áætlun um brúna á lengsta svæðinu. Þetta má vel vera, að hjer sje ekki um vantraust að ræða, en mjer þykir það samt undarlegt, ef verkfræðingarnir leggja það til að gera brýr á þurru landi, og velji lengsta og dýrasta svæðið, ef hægt er að gera það á styttra svæði.

Jeg skal ekki heldur neitt fara út í þær skýringar, sem hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) gaf um það, hvers vegna hann greiddi atkvæði með fjárveitingu til Jökulsárbrúar fyr meir, en það þótti mjer vænt um að heyra, að hann ætlar ekki framvegis að láta binda sig þeim flokksböndum, að hann fyrirgeri sannfæringu sinni, enda ætti það enginn að gera, því að hjer er sannarlega ekki um smáatriði að ræða.

Jeg held þá, að jeg hafi svarað því helsta, sem fram hefir komið. En jeg hirði ekki um að gegna aftur því, sem einstakir þm. hafa verið að jagast út af brtt. sínum enn á ný, því að þeir hafa ekkert hrakið af því, sem jeg hefi áður um þær sagt.

Vona jeg þá, að háttv. þingd. sýni stefnu fjárveitinganefndar fulla viðurkenningu, þegar atkvgr. fer fram.