07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Jón Jónsson:

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) ljet sjer sæma að brigsla mjer um hringsnúning á síðasta þingi. (G. Sv.: Að gefnu tilefni). Jeg hefi ekki gefið tilefni til þess. Úr því að hv. þm. (G. Sv.) viðhefur þessi orð, er best að jeg komi með rök. Jeg var í fjárveitinganefnd á síðasta þingi og skrifaði undir nál. með fyrirvara, því að jeg var nefndinni ósammála að því leyti, að jeg vildi útiloka stóran hóp manna, sem enga dýrtíðarhjálp þurfti, og sagði henni það. Jeg ætlaði að fylgja þessari skoðun minni fram á þinginu, og kom fram með tillögu, sem jeg tók aftur af sjerstökum ástæðum. Kunnugt var, að Ed. var mjög á móti till., og þá komu til mín þingmenn, sem töldu ekki ráðlegt að halda henni fram og rjettara að koma fram með aðra, öðruvísi orðaða. Var þó meiri hluti þm. í Nd. fylgjandi minni tillögu. Það kom fram á fundi, sem haldinn var um málið. Kom svo fram önnur tillaga, sem sumir hjeldu að fengi betri byr í Ed. Tókum við þm. N.-M. þá okkar tillögu aftur. Greiddi jeg svo hinni tillögunni atkvæði, þó að mjer þætti hún ekki góð. En hún var feld í Ed.

Samkvæmt skoðun minni var því sjálfsagt fyrir mig að greiða atkvæði á móti tillögunni og láta málið bíða til aðalþings. Menn sjá því, að það er gersamlega rangt hjá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að jeg hafi snúist. Jeg hefi jafnan rjett til að hafa skoðun eins og hann, og hefi verið lengur þingmaður en hann. Jeg þykist hafa unnið sæmilega sem bóndi í sveit. Og þótt störfum okkar sje misjafnt háttað, býst jeg við, að hann hafi líka unnið vel og trúlega að sínum störfum.

Mjer finst því, að við ættum báðir að bera virðingu hvor fyrir annars skoðun. (G. Sv.: Og hringsnúningi!) Jeg álít það ósæmilegt af háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) að viðhafa slík orð móti betri vitund.