07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Arnórsson:

Jeg tel óþarft að ræða þetta mál frekar og ekki mikils gagns að vænta af frekari umr. Það er að eins út af spursmálinu, í hvaða nefnd málið á að fara, að jeg vildi segja nokkur orð. Það hafa víst komið uppástungur um fjárveitinganefnd og bjargráðanefnd. Frá mínu sjónarmiði er það ekkert vafamál, að ef það á að fara til nokkurrar fastanefndar, þá er það fjárveitinganefnd. Jeg hefi skilið það svo, að bjargráðanefnd ætti að taka til athugunar þau mál, sem snerta verslun og siglingar og önnur mál, sem beinlínis stafa af styrjöldinni og til bjargráða horfa. Hvort heldur þessi uppbót er skoðuð sem greiðsla fyrir unnið verk, eða styrkveiting og hjálp, þá er málið fyrst og fremst fjárspursmál og á því heima í fjárveitinganefnd eða ef til vill í fjárhagsnefnd. Ef mjer skilst rjett, þá hefir líka bjargráðanefnd nóg að gera, þótt þessu máli sje ekki skotið undir hana. Það er ætlast til, að fjárveitinganefnd haldi fundi á hverjum degi, og tími hennar er minna takmarkaður en annara nefnda. Jeg held því, að það sje langljettast fyrir hana að fara með þetta mál, því að henni er kunnugra en bjargráðanefnd, hvað fjárhagurinn þolir. Auk þess er þetta í eðli sínu ekki annað en spursmál um, hvort hækka eigi fjárveitingar ákveðinna greina í fjárlögunum eða eigi. Jeg fæ ekki sjeð, að bjargráðanefnd sje nokkru færari um að ráða þessu máli til lykta en fjárveitinganefnd. Fjárveitinganefnd hefir til meðferðar mörg lík spursmál um ýmsar greinar fjárlaganna, og að athuga þetta mál er ekki meira fyrir hana en ýms önnur svipuð atriði. Jeg veit ekki, hvernig þetta á að geta fallið undir verksvið bjargráðanefndar, því að jeg sje ekki, að þetta sje brýnt bjargráð. Að vísu skal jeg kannast við, að mikill hluti starfsmanna landsins er fjárhagalega illa settur, en bjargráð getur það varla kallast að veita þeim uppbót. Bjargráðin eru miðuð við stórnauðsynjar landsins og miða að því að halda uppi verslun, siglingum og atvinnuvegum landsmanna.

Fyrir mjer vakir eingöngu spursmálið um, í hvora þessara fastanefnda málið eigi að fara. Vitanlega mætti kjósa lausanefnd í málið, en það er ekki hentugt, vegna vinnubragða þingsins. Fastanefndirnar hafa ráðstafað fundatímum sínum þannig, að þeir rekast ekki á, en ef lausanefnd er kosin, er hætt við, að þeir, sem í henni ættu sæti, hefðu ekki annan tíma en á kvöldin, eftir kvöldverð, eða næturnar, eða þá á morgnana, ef þeir vildu fara eins snemma á fætur og menn gera í sveitinni um túnasláttinn. Jeg býst við, að kvöldtíminn yrði óhentugur, því að fyrir flesta er hann frjálsasti tíminn og aðalvinnutíminn fyrir framsögumenn og ritara nefndanna. Af þeirri ástæðu ætti ekki, vegna vinnubragða þingsins, að kjósa lausanefndir, nema í brýnustu nauðsyn, og í þeim málum, sem engri af fastanefndunum er treystandi til að starfa að.