07.07.1917
Neðri deild: 5. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (443)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Þórarinn Jónsson:

Jeg hafði enga hvöt til þess að tala, og kemur það sjálfsagt til af því, að jeg þarf ekki að kvarta undan kjósendum mínum. Jeg ætla því ekki heldur að gefa nefndinni, sem fær þetta mál til meðferðar, neitt veganesti, en að eina leyfa mjer að benda henni á þingmálafundargerðirnar úr mínu kjördæmi. Jeg heyrði aldrei neinn mann í mínu kjördæmi kvarta undan dýrtíðaruppbótinni í vetur, og skal jeg ekki segja um, hvað því veldur, nema ef vera skyldi það, að jeg eigi það skynsamari og sanngjarnari kjósendur en margir aðrir þingmenn. Vitanlega voru þeir óánægðir með það, hve víðtæk uppbótin var, en töldu ekki rjett að fella alt málið fyrir það. Ekki ætla jeg mjer heldur að tala mikið um asnann, sem háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talaði um að búið væri að leiða hjer inn í herbúðirnar, hvorki þá hlið hans, er hann virtist ekki þurfa óverulegan stuðning af, nje hina, en það vil jeg þó segja, að mjer finst óviðfeldið að heyra slík orð hjer í þingsalnum, og að menn skuli láta sjer sæma að bera þær sakir á aðra, sem þeir eiga ekki fyrir. Jeg vil vísa því algerlega frá mjer, að jeg hafi barið hjer lóminn fyrir bænda hönd og verið með nirfils- eða smásálarskap. (Sk. Th.: Það eru til heiðarlegar undantekningar). Mjer dettur í hug, hvort slíkt orðbragð muni ekki stafa af mentunarskorti, því að enda þótt þm. (Sk. Th.) vissi, að það væri satt, er það mjög óheppilegt, ekki síst nú, þegar ríður á góðri samvinnu, að beita þeim vopnum, og væri betra að reyna að vinna menn á sína skoðun á annan hátt.