17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Pjetur Jónsson:

Jeg verð að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni í þessu máli, þar sem jeg er orðinn milli flokka. Það hefir áður verið skýrt frá, hvernig ferðalag nefndarinnar hefir gengið. Hún gat ekki orðið samferða, en fjell fyrst og fremst í tvo andstæða flokka, þar sem annar vill fara sem næst till. stjórnarinnar, en hinn breyta miklu. Svo voru nokkrir, sem voru bil beggja, og þó einkum jeg, sem er nokkuð út af fyrir mig. Það er eins og gerist og gengur, að sitt sýnist hverjum, og ekki er gott að koma sjer saman um öll atriði. Þótt jeg geti talist með báðum, hallast jeg þó frekar að hv. meiri hluta, því að honum gat jeg fylgt í sumum atriðum, einkum að forminu til. En gagnvart hv. minni hluta var jeg á sama máli um eitt, og það var að lækka ekki uppbótarfúlgu þá, er stjórnin stakk upp á. Jeg hafði hvorki köllun frá kjósendum mínum nje sjálfum mjer til þess. Jeg ætlaði mjer ekki heldur þá dul að stinga upp á hærri uppbót. Til þess liggja ýms rök, en fyrst og fremst bjóst jeg ekki við, að slíkt gengi fram, eftir þinginu í vetur að dæma. Ef fúlga sú, er stjórnin leggur til að veitt sje, er lækkuð í heild sinni, svo að um munaði, finst mjer, að uppbótin yrði þá svo óveruleg hjá mörgum, að þeim þætti lítt til vinnandi að þiggja hana. Býst jeg við, að sumir í meiri hlutanum hallist að svipaðri skoðun, þótt þá greindi á við mig að öðru leyti. Aftur var jeg óánægður með skiftingu stjórnarinnar. Jeg gat ekki felt mig við hana í stjórnarfrumvarpinu, fremur en í þingsályktuninni í vetur, þótt jeg greiddi atkv. með þeirri till. þá. Jeg áleit, að taka ætti tillit til fleiri atriða við ákvörðun mælikvarðans en mismunandi launahæðar. Eftir þingsályktuninni í vetur er dýrtíðaruppbótin ekki bein uppbót á verðfalli peninganna. Hún fylgir ekki í beinni línu verðfalli þeirra. Ef svo ætti að vera, fengi maður með 4500 kr. launum 50% uppbót, eins og sá, sem hefir að eins 1500 kr. laun. En sá munur, sem er gerður á mismunandi launahæðum, hlýtur að miðast við mismunandi þarfir manna. Að miðað sje einkum við þarfirnar gerir alls ekki það að verkum, að þetta þurfi að skoðast sem nokkurt gustukaverk af þinginu, heldur sýnir það, að uppbótin er alls ekki nóg til að bæta dýrtíðarhallann, heldur einungis, og með nákvæmri skiftingu, til þess að ljetta undir með brýnustu þarfir. En ef þetta er viðurkent, þá er líka ljóst, að launahæðin er altof ónákvæmur leiðarvísir um, hvar þörfin er mest, heldur verður að hafa tillit til fleira. Þetta hefir meiri hlutinn viljað gera. Hann hefir viljað gera mun á algerlega einhleypum mönnum og þeim, er hafa fyrir mörgum að sjá. Hann hefir líka viljað gera mismun á þeim, sem hafa fyrir fáum, og þeim, sem hafa fyrir mörgum að sjá. Þetta er auðvitað vandasamara en hin aðferðin, að fara eftir launum á pappírnum, og það er ekki heldur full nákvæmni í því, en er þó spor í sanngirnisáttina, sem jeg vil stíga með hv. meiri hluta. En þar skildu leiðir mínar og hv. meiri hluta, að mjer fundust till. hans skerða ofmjög þá fúlgu, er stjórnarfrumvarpið ætlar til uppbótar þeim flokkum, er till. nefndarinnar ná yfir; í stuttu máli lækka uppbæturnar um of.

Skal jeg svo víkja að brtt. mínum, að því leyti, er þær víkja frá till. háttv. meiri hluta. Þótti mjer yfirleitt rjettara að laga mínar till. eftir till. þess hluta, er jeg taldi mig til, en að setja þær í samband við stjórnarfrumvarpið.

Í fyrsta lagi gat jeg ekki fallist á að stýfa af þá, sem hafa hærri laun en 3500 kr., enda lítið, sem sparast við það, og auk þess þekki jeg nákvæmlega, að ýmsir þeirra eiga fullkomlega í vök að verjast.

Í öðru lagi þótti mjer hundraðstalan lækka ofmjög á vissu bili, er hún lækkar niður í 10% alt í einu á 3500 kr. launum. En að öðru leyti get jeg fallist á till., með þeirri viðaukatill., að bætt skuli við hvern, er dýrtíðaruppbótar nýtur, eftir fjölda framfæringa.

Jeg vil geta þess, í sambandi við 2. lið í brtt. mínum, að þar er »formula«, sem jeg ljet annan mann gera fyrir mig, og er hún röng. Fyrir því hefi jeg komið með brtt. á þgskj. 449 um, að uppbótin fari jafnt lækkandi á milli hinna tilteknu stiga, og óska því, að þessi till. sje skoðuð sem aðaltill. Hæstv. fjármálaráðherra (B. K.) hefir og sagt mjer, að þá aðferð hafi stjórnin haft.

Í þriðja lagi gat jeg ekki fallist á að strika út alla þá einhleypa menn, er hafa yfir 2000 kr.; vil þar fara upp í 2500 kr. Jeg held líka oflangt gengið að gera helmings mun á þessum mönnum og þeim, er hafa lítið heimili, því að mismunurinn á kjörum þeirra er ekki ætíð svo mikill, einkum þegar uppbótin vegna framfæringa bætist við.

Í fjórða lagi vil jeg láta þessa 50 kr. dýrtíðaruppbót, sem meiri hlutinn vill gjalda fyrir hvert barn, ná einnig til annara framfæringa, svo sem foreldra og annara, er eigi geta unnið að fullu fyrir framfæri sínu. T. d. mun ekki þurfa minna til unglinga, er ganga í skóla, en barna innan 15 ára.

Þarf jeg svo ekki að orðlengja frekar, en vona, að menn hafi skilið og athugað brtt. mínar, sem og þau atriði í till. meiri hlutans, sem jeg er samþykkur.

Jeg ætla ekki í neinar orðaflækjur við háttv. þm. Dala. (B. J.) um nafnið. Þykir mjer engin ástæða til að leggja slæma merkingu í nafnið dýrtíðaruppbót, sjerstaklega ef fallist verður á mínar till. Jeg vil, að þingið láti þetta af hendi með fúsu geði, og biðji velvirðingar á, að það er ekki meira. Þarf þá enginn að skoða það neinn vansa að taka við því.