17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (451)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Þorsteinn Jónsson:

Eins og háttv. frsm. meiri hlutans (S. S.) tók fram samdi meiri hlutanum ekki að öllu leyti um mál þetta. En eftir allmiklar umræður á mörgum fundum, kom meiri hlutinn sjer saman um flestar þær till., er hjer liggja fyrir frá honum. Jeg vildi t. d. í einstökum atriðum ganga lengra en meiri hlutinn, og hallaðist fremur að ýmsum till. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) á þgskj. 433. En þeir í nefndinni, sem enn þá lengra vildu fara, tóku sig út úr. Vildi jeg því ekki sigla málinu alveg í strand, heldur reyna að ná samkomulagi um meðalhófið. Sjerstaklega skal jeg taka fram, að jeg vildi ekki hætta að veita dýrtíðaruppbót við 3500 kr., heldur láta hana ná til 4500 kr. og vera þá 5%. Líka vil jeg láta dýrtíðaruppbót fylgja hverjum skylduframfæring.

Enginn í bjargráðanefnd væri á móti því að bæta embættismönnum meir verðfall peninganna, ef fjárhagur landssjóðs væri góður. En nú hefir engum dottið í hug, að hægt væri að bæta þeim það til fulls. En jeg fæ ekki betur sjeð, en að fyrir öllum, bæði stjórn, meiri hluta og minni hluta, vaki sú sama hugsun, að veita þeim, sem helst þurfa, uppbót, eða skaðabætur, eða hvað menn vilja kalla það.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) tók það fram í sinni löngu mælskuræðu, að hjer væri á ferðinni ný hugsanalög, er hann hefði eigi áður þekt, er um það væri rætt að gera mun á framleiðendum og þeim, sem ekki væru framleiðendur. Hann hefir víst ekki munað í svipinn, að þessi hugsanalög voru þekt á þinginu 1915. Þá var miðað við það, hvort embættismenn hefðu framleiðslu eða ekki. Samt er meiri hluta bjargráðanefndar það fullljóst, að hjer eru vandkvæði á, og þeir, er litla framleiðslu hafa, muni uppbótarþurfar, og þeir eiga að fá uppbót samkv. till. meiri hlutans. En hinir, sem geta sint framleiðslunni sjálfir og hafa framleiðslu í talsvert stórum stíl, þurfa síður uppbótar með. Áleit því meiri hlutinn, að stjórnin yrði að fara eftir því, hve mikinn gróða hún álítur að embættismenn þeir, er framleiðslu hafa, hafi af framleiðslu sinni, og hvernig þeir eru settir að öðru leyti.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) fór nokkrum orðum um mannúðarleysi við farkennara. Það var eitt atriði, er mig greindi á um við nefndina. Jeg vildi láta farkennara fá sömu dýrtíðaruppbót og kennara við fasta skóla. Það kom fram dálítil villa í framsöguræðu háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) viðvíkjandi þeirri breytingu á stjórnarfrumvarpinu, að láta alþýðukennara fá dýrtíðaruppbót. Bjargráðanefndin fjekk brjef frá mentamálanefnd, þar sem mentamálanefnd skoraði á bjargráðanefnd að taka kennara með hvað dýrtíðaruppbótina snertir, en kvaðst að öðrum kosti leggja fram frv. um hækkun á launum kennara. Í því brjefi mun háttv. þm. Dala. (B. J.) hafa átt mikinn þátt, og kom mjer því ókunnuglega fyrir, er hann ljet í ljós, að hann hefði ekki tekið fasta afstöðu í þessu atriði.

Meiri hluti bjargráðanefndar hefir alls ekki viljað gera neitt, er gæti sært embættismenn, svo sem með því að skoða þessa uppbót sem nokkurs konar sveitarstyrk. Get jeg ekki heldur sjeð, að svo þurfi að líta á, þótt meiri hlutinn gangi lengra en minni hlutinn í því að veita þeim, er helst þurfa.

Annars vil jeg ekki fjölyrða um mál þetta. Mjer er kunnugt um það, að sú leið, er meiri hlutinn vill fara, er skapfeldari þjóðinni í heild en leið sú, er minni hlutinn vill fara. Hvor leiðin sje dýrari þjóðinni, hefi jeg ekki átt kost á að reikna, og geri það ekki heldur að höfuðatriði, heldur hitt, að þeim sje veitt mest uppbót, er helst þurfa hennar með.