17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 909 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Jörundur Brynjólfsson:

Þetta mál er nú orðið svo margrætt, að það er engin þörf á að fara langt út í það. Jeg skal því að eins leyfa mjer að drepa á fáein atriði.

Jeg skal þá fyrst snúa mjer að till. meiri hlutans. Þar voru ýmsir í meiri hlutanum ekki sömu skoðunar um sum smávægileg atriði. T. d. hafði jeg sterka tilhneigingu til þess að víkka ákvæðið um uppbót til framfærsluskyldra manna, láta það ná lengra en til barna. Enn fremur vildi jeg gera minni mismun á einhleypum mönnum og kvæntum mönnum. Enn fremur mundi jeg heldur hafa kosið, að hámark launahæðar, sem uppbót yrði greidd af, hefði verið færð dálítið upp, en %-gjaldið þá auðvitað hækkandi niður á við.

En ekkert af þessu var nokkurt aðalatriði. Andmælendur meiri hluta nefndarinnar hafa fárast yfir því, hvort hjer væri um hjálp eða skaðabót að ræða. Þar hefir þeim alveg skotist yfir það, sem helst styddi þeirra mál, sem sje að þeir hafa sjálfir kent, að vjer með uppbótinni bættum alls ekki upp fall peninganna, heldur yrðum að haga henni eftir launahæð og þörf. Grundvöllurinn undir þessum fjárveitingum er því þörfin, eins og meiri hlutinn heldur fram í nál. sínu, án þess þó að meiri hlutinn vilji kalla þetta sveitarstyrk eða gjöf, því að þetta er auðvitað skaðabætur, þó að verðfall peninganna sje ekki bætt að fullu, og síst hjá þeim, er allhá laun hafa. Því hefir meiri hluti nefndarinnar reynt að sníða uppbótina svo, að hún fari eftir þörfum hvers eins. Annars höfum vjer í meiri hlutanum enga tilhneiging til þess að nefna þetta hjálp; vjer köllum það uppbót í nál. Raunar hefir þetta enga þýðingu, en samt vil jeg benda á það, að í nál. fjárveitinganefndar á aukaþinginu í vetur er komist svo að orði um þetta mál: »Þótt nefndin hafi þannig fallist á rjettmæti þessara krafna og hina miklu þörf hjá öllum þorra starfsmanna landsins fyrir bráða hjálp, hefir hún þó ekki sjeð sjer fært að leggja til, að Alþingi veitti uppbót svo háa, sem krafist er, nje heldur öllum launamönnum jafnt«. Undir þetta hefir meðal annara skrifað háttv. þm. Dala. (B. J.) alveg fyrirvaralaust, og er þar þá sammála því, að þetta sje hjálp, og ámæli jeg honum ekkert fyrir.

Fyrir mitt leyti er mjer það kærast, að hægt væri að greiða öllum embættismönnum fult verðfall peninganna, en þó því að eins, að öllum öðrum yrði greitt verðfall kaups síns.

Það, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) mintist á um gamalmenni og börn, að gera þar engan greinarmun á, er alveg í samræmi við mína skoðun, en það var ekki von, að honum væri kunnugt um hana. Það er hjer um bil eins ástatt um gamalmenni og börn venjulega. Jeg er líka á því, að styrkurinn sje ekki eins hár og þyrfti að vera, en vjer verðum þar að sníða oss stakk eftir vexti og fara ekki lengra en vjer treystum oss að efna.

Um framleiðendur skal jeg geta þess, að það segir sig sjálft, að þeir, sem hafa mikla framleiðslu, eru betur settir en þeir, sem enga hafa, og verða þeir þá að bjarga sjer eins og aðrir, fyrir þá sök, að allar uppbæturnar eru sniðnar eftir þörfinni.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) drap á það í ræðu sinni, að við værum í raun og veru sammála um grundvöllinn, sem ganga ætti út frá, en kæmumst að eins að mismunandi niðurstöðu.

Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. (M. P.) fær það út, því að það er einmitt grundvöllurinn, sem okkur greinir á um. Háttv. þm. (M. P.) bar saman nál. meiri hlutans og minni hlutans og taldi nál. meiri hlutans ekki nægilega nákvæmt. Það er að vísu satt, að við eyðum ekki heilli blaðsíðu í vöruupptalningu, eins og er í nál. minni hlutans, heldur segjum að eins, hvað vörur hafi hækkað, í einni málsgrein, sem sje 170%, verðfall peninga því um 63%. Við förum í þessu eingöngu eftir útreikningum hagstofunnar, sem jeg hygg að sje það ábyggilegasta í þessu máli, og við getum rökstutt okkar mál með tilsvarandi skýrslum frá henni. Minni hl. nefndarinnar kemst að þeirri niðurstöðu, að nauðsynjavörur hafi hækkað að eins um 133%. Það kemur til af því, að þeir hafa tekið með ýmsar vörutegundir, sem við höfum slept, og eru ekki alveg bráðnauðsynlegar. Við höfum því gert ljósari grein fyrir ástandinu, eins og það er í raun og veru.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) drap enn fremur á það, að nú væri meiri ástæða til að hækka uppbótina en lækka. Og er það alveg rjett. En það er líka aðgætandi, að nú eru ástæður breyttar frá því, sem var í vetur. Þá höfðu verkamenn »privat«-manna fengið uppbót, en starfsmenn landsstjórnarinnar enga. Þingið gat því ekki staðið sig við annað en veita þeim uppbót. Með þetta fyrir augum voru till. í vetur samþ. Það var að vísu ekki með góðum vilja gert frá allra hálfu, þótt menn hins vegar vildu ekki svifta þá allri uppbót, er þurftu hennar nauðsynlega með.

Jeg vil leyfa mjer að benda hv. þm. á, að málið horfir nú öðru vísi við; dýrtíðin hefir aukist til muna, og landsstjórnin stendur sig því illa við að borga embættismönnum mjög háa uppbót, þar sem almenningur á mjög erfitt, og ekki er hægt að hjálpa honum eins og æskilegt væri. Jeg vona, að háttv. þm. Stranda. (M. P.) hjálpi, eins og hann frekast getur, til þess, að almenningur fái nokkra ívilnun á verði nauðsynjavara, þó að auðsætt sje, að ómögulegt er, að landssjóður geti veitt almenningi eins mikla hjálp og þörf er á, eða æskilegt væri. Á þetta ber einnig að líta, þegar ræða er um uppbót til embættismanna, því að þeir standa að því leyti betur að vígi en verkamenn, að þeir eiga kaup sitt víst, þó að lágt sje. Jeg hefi aldrei dregið dul á, að kaup þeirra mætti gjarnan vera hærra, en á þessum tímum verður margur að gera sig ánægðan með það, sem minna er. Bæði verkamenn í kaupstöðum og sjómenn eru mun ver settir en embættismenn, því að þótt þeir fái vinnu sína vel borgaða í sumar, þá þarf enginn að halda, að þeir leggi upp af því kaupi. En eins og alt bendir á þá mun verða mjög lítið um atvinnu í vetur, og þó að aldrei nema landsstjórnin sjái fyrir aukinni vinnu, þá verður kaupið aldrei svo hátt, að það nægi fyrir lífsnauðsynjum. Ef þingið skilur svo við þetta mál, að ekki verði ljett undir með almenningi í dýrtíðinni, þá hygg jeg, að háttv. þm. Stranda. (M. P.) geti sagt sjer sjálfur, að það muni verða þröngt í búi hjá mörgum.

Háttv. þm. Stranda. (M. P.) talaði enn fremur um, að það væri undarlegt, að það ætti að undanskilja framleiðendur frá uppbótinni. Þar til er því að svara, að hjer er að eins verið að tala um, að menn geti dregið fram lífið með þolanlegu móti. Og það liggur í augum uppi, að sá, sem á bú og hefir allmikla framleiðslu, stendur betur að vígi heldur en daglaunamaðurinn, sem er með tvær hendur tómar. Hvað viðvíkur því, að stjórnin muni eiga erfitt með að greina, hverjir hafi nægilega framleiðslu og hverjir ekki, þá er auðvitað ekki mögulegt að greina þá nákvæmlega með beinni línu, en hitt hygg jeg, að henni sje hvergi nærri ofvaxið að ætlast á um það, hvort hlutaðeigandi hafi nóga framleiðslu fyrir sig að lifa af, því að um annað er hjer ekki að ræða. Þetta var stjórninni mögulegt 1915. Það hefi jeg eftir þáverandi ráðherra, háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), og þá ætti hún ekki síður að geta það nú.

Jeg þarf ekki að fara út í ræðu hæstv. fjármálaráðh. (B. K.), því að henni hefir þegar verið svarað, en það voru nokkur atriði hjá hæstv. forsætisráðherra, sem jeg ætla að minnast á í fáum orðum. Hann sagði, að stjórnin hefði ekki búist við því, að þingið væri svo hverfult í rás sinni, að það færi að hrófla við áður gerðum samþyktum. En jeg get ekki betur sjeð en að þingið sje í engu bundið að halda fast við það, sem gert var í vetur í þessu máli, þar sem kringumstæðurnar eru nú svo mjög breyttar, og að ýmsir voru óánægðir með þær ráðstafanir, sem þá voru gerðar. Hæstv. forsætisráðherra drap og á það, að ekki væri hættumeira fyrir oss Íslendinga að taka lán á þessum tímum heldur en aðrar þjóðir. Það er alveg rjett athugað, og jeg vona, að hæstv. forsætisráðherra veiti því stuðning, er á þarf að halda. Að eins vil jeg, að það komi fleirum til góðs en embættismönnum, því að eins og jeg tók fram áðan, er alþýða manna enn ver sett en þeir, og ætti því ekki síður að fá að njóta lánsins. Jeg er að öðru leyti hæstv. forsætisráðherra þakklátur fyrir þessi orð, og er gott að vita um afstöðu hans, er til þeirra kasta kemur. En jeg get ekki látið vera að minnast á, að mjer hefir virst hæstv. ráðuneyti helst til undirtektadauft í því, er lýtur að hjálp handa almenningi. Mjer þykir hálfundarlegt, að hæstv. stjórn skuli að eins bera fram frumvarp um uppbót til embættismanna, en ekkert til hjálpar alþýðu, einkum þó í kaupstöðum, sem er í enn meiri vanda stödd en embættismenn.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en að eins drepa á það, sem hæstv. forsætisráðherra sagði um skólana. Verð jeg að segja, að jeg skil ekki þau skifti. Svo framarlega, sem stjórnin bjóst við, að þingið hefði sömu skoðun og í vetur, þá átti ekki að taka neina undan, sem uppbót fengu á síðasta þingi. Og mjer þykir það mjög undarlegt, að stjórnin skuli einmitt velja þá stjett úr, kennarana, sem eru langverst staddir af öllum starfsmönnum þjóðarinnar, og láta þá sitja á hakanum. Háttv. mentamálanefnd er okkur sammála um þetta atriði. Jeg hefði að vísu kosið, að uppbótin til kennara yrði víðtækari en hjer er lagt til, að hún næði einnig til stunda- og farkennara, en þar beygði jeg mig fyrir meiri hlutanum.