17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 928 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Arnórsson:

Jeg skal ekki fara út í einstök atriði. Það er þegar búið að ræða þau svo, að vart er þörf á meiru.

Það var að eins eitt atriði, sem jeg ætlaði að minnast á. Eins og kunnugt er var á aukaþinginu í vetur samþykt þingsályktunartillaga um dýrtíðaruppbót, og það er eftir reglum, sem settar voru í till., sem frv. stjórnarinnar um dýrtíðaruppbót til embættismanna er samið. Jeg get ekki láð stjórninni, þótt hún bæri fram þetta frv. Jeg hefði miklu fremur talið það vanrækslu frá hennar hendi, hefði hún ekki gert það. Á aukaþinginu í vetur var það kunnugt og játað, að hækkun á aðalnauðsynjum hafi í októbermánuði í fyrrahaust verið orðin 70%. Á þessum grundvelli var þingsályktunartillagan, sem jeg gat um, bygð. Nú er það játað í nál. meiri hlutans, að nú sje hækkun á nauðsynjavöru orðin 170% frá því, sem var fyrir stríðið. Með öðrum orðum, hækkunin hefir meira en tvöfaldast frá því í fyrrahaust.

Nú er eitt af tvennu til. Annaðhvort hefir aukaþingið í vetur farið óforsvaranlega langt, eða meiri hluti nefndarinnar nú óforsvaranlega skamt. Á það má benda, að þingsályktunartillagan í vetur var samþykt með miklum atkvæðamun; voru að eins 7 á móti, en allir aðrir með. Það hafa fá mál náð fram að ganga með jafnmiklum meiri hluta og þetta. Gera má ráð fyrir, að þingið í vetur hafi ekki samþykt blábera vitleysu. Hafi þingið í vetur ekki verið mun óvitrara en önnur þing, væri harla einkennilegt ef þetta þing samþykti að lækka uppbótina, þótt vörur hafi stigið um helming síðan þá.

Aðalástæðan, sem nú er borin fyrir, er ekki heldur sú, að uppbótin í vetur hafi verið ofhá, heldur að hagur landssjóðs sje nú svo bágborinn, að hann þoli ekki þau útgjöld, sem jafnhá uppbót hefði í för með sjer. Það er sagt, að landssjóður sje nú mjög skuldugur. Ef jeg man rjett, var skuld landssjóðs fyrir stríðið tæpar 2 miljónir. En eignir hans, varasjóður, verðbrjefaeign, eign í Landsbankanum, hlutabrjef í Eimskipafjelaginu o. fl., námu miklu meiru en sem svaraði skuldunum. Lán, sem stofnað hefir verið til síðan stríðið byrjaði, eru ekki hættuleg. Hve há þau eru veit jeg ekki, enda skiftir það ekki miklu. Þau eru ekki eyðslufje. Það er sama um þau og lán, sem útgerðarmenn og kaupmenn taka. Bak við standa vörurnar, sem landssjóður hefir keypt fyrir fjeð. Það er því ekki hægt að segja, að hagur landsins sje bágborinn, fremur en að kaupmaður, sem skuldar eftir reikningum að dæma, en á stórbirgðir, sje illa stæður. En þó að svo væri, að landssjóður þyrfti að auka skuldir vegna dýrtíðaruppbótar embættismanna og annara frv., sem háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) og ýmsir aðrir bera fram, þá er það ekki annað en það, sem viðgengst nú í öllum löndum. Öll ríki, þótt hlutlaus sjeu, hafa haft mikinn stríðskostnað, en til að greiða hann hafa verið tekin lán. Það kemur til af því, að stjórnir landanna hafa ekki sjeð ástæðu til að pína sig og plága til að greiða allan kostnaðinn strax, heldur er honum jafnað á mörg ár í framtíðinni, og ef til vill á fleiri kynslóðir. Þessu er líkt farið og þegar Reykjavíkurbær ræðst í eitthvert fyrirtæki, vatnsleiðslu, gasstöð eða hvað það nú er; þá dettur bæjarstjórninni ekki í hug að greiða allan kostnaðinn á einu ári. Nei, bærinn tekur lán, sem er svo greitt á 30—40 árum. Þótt ekki sje hjer algerlega líku saman að jafna, þá er stefnan sú hin sama, að dreifa greiðslunni á fleiri ár.

Þessi ástæða, að hagur landssjóðs sje nú ofbágborinn til þess, að hægt sje að veita starfsmönnum landsins launauppbót, er því í mínum augum vætkisverð. Með þessum orðum á jeg ekki eingöngu við það frv., sem nú liggur fyrir deildinni, heldur og öll frv., sem fram hafa komið um dýrtíðarhjálp. Það ber ekki að taka neina sjerstaka stjett út úr, og hjálpa henni einni, heldur á að hjálpa öllum, sem eru hjálparþurfar. Þar fyrir er það ekkert misrjetti fyrir aðra, að fyrst og fremst er hugsað um embættismennina, sem eru í alveg sjerstökum skilningi starfsmenn landsins. Þeir eru ráðnir upp á ákveðið kaup, en borgað í sviknum gjaldeyri, ef jeg má komast svo að orði, því að í raun og veru er gjaldeyririnn svikinn, þar sem hann gildir miklu minna en ætlast var til, þegar mennirnir voru ráðnir. Það er samskonar fyrirbrigði, sem nú á sjer stað, og við bankahrunið 1813, þegar seðlar fjellu stórmikið í verði; þá voru þeir svikinn gjaldeyrir, þar sem þeir höfðu miklu minna gildi en menn áttu kröfu til og þeir sögðu sjálfir.

Það var að eins þetta, sem jeg ætlaði að taka fram. Jeg tel mjer óþarft að minnast á einstök atriði. En þar sem brtt. háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) fara nær hinu rjetta en till. meiri hlutans, mun jeg greiða þeim atkvæði, ef frv. nær ekki fram að ganga óbreytt, því að þegar ekki er kostur á því, sem er í alla staði rjettlátast, verður að taka það, sem er næstbest.