17.08.1917
Neðri deild: 36. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 931 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Hákon Kristófersson:

Þetta mál hefir bæði nú og eins á þinginu í vetur vakið miklar umræður. Jeg var einn af þeim, sem í vetur greiddu atkv. á móti þingsályktunartillögunni um dýrtíðaruppbótina. Jeg gerði það ekki af því, að jeg væri mótfallinn dýrtíðaruppbót, heldur af því, að jeg var óánægður með niðurröðunina og allan undirbúning málsins. Mjer, eins og mörgum fleirum, var kunnugt um, að það mál var ekki borið upp í þinginu eftir einróma ósk þeirra, sem hlut áttu að máli, heldur átti það alt aðrar orsakir. Því að það var vitanlegt, að flestum, ef ekki öllum, embættis- og sýslunarmönnum landssjóðs, er búsettir voru utan Reykjavíkur, var símað af háttsettum mönnum hjeðan, og þeim bent á að krefjast dýrtíðaruppbótar. En eins og jeg taldi það sjálfsagt þá, að margir af embættismönnum fengju uppbót, þá tel jeg það enn sjálfsagðara nú. Það er heldur enginn, sem neitar því, að uppbót sje sanngjörn, ef ekki sjálfsögð. Ágreiningurinn er um það, hvaða leið skuli farin. Nefndin hefir ekki orðið á eitt mál sátt, heldur hefir hún tví-, þrí- eða fjórklofnað. Mjer kemur ekki til hugar að væna nokkurn klofninganna um, að hann leggi til annað en það, sem hann hyggur að best muni hlíta. Það verð jeg þó að segja, að með engar af tillögum þeim, er klofningarnir koma með, er jeg fyllilega ánægður.

Meiri hlutinn leggur til, að embættismönnum, sem hafa verulegar tekjur af framleiðslu, sje engin uppbót veitt. Þessa till. tel jeg á mikilli sanngirni bygða, ef hægt væri að slá einhverju föstu með það, hvað væri veruleg framleiðsla. Hver á að meta það? Eftir því, sem þetta hefir verið skýrt af frsm. (S. S.), mun hjer vera átt við þá embættismenn, er til sveita búa og hafa þá um leið tekjur af framleiðslu. Að undanskilja þá með öllu tel jeg mjög varhugavert, því að vitanlega eru margir af þeim fátækir menn, er vissulega þurfa dýrtíðarhjálpar með.

Vitanlega mun dýrtíðin koma harðast niður á kaupstaðarbúum. Húsnæði og eldiviður þar afardýrt. Að því leyti má telja, að menn í sveit komist betur af, því að þar mun að öllum jafnaði vera hægra að afla eldiviðar á ódýrari hátt. Sömuleiðis húsnæði þar jafnaðarlega ódýrara en í kaupstöðum, en þetta tvent gerir lífsframfærslu kaupstaðarbúa svo feikna erfiða.

Meiri hlutinn leggur og til, að þeir, sem hafa lausakenslu með höndum, fái enga dýrtíðaruppbót. Um þetta get jeg verið nefndinni algerlega sammála. Þessir menn fá fæði og húsnæði hjá sveitarfjelaginu. Dýrtíðin kemur því lítið við þá hvað þetta snertir. Það verður sveitin, sem aðalafleiðingar dýrtíðarinnar lenda á. Svona er það, að minsta kosti þar, sem jeg þekki til.

Framsm. meiri hlutans (S. S.) sagði, að dýrtíðaruppbótin, sem veitt var á aukaþinginu í vetur, hafi numið 420 þús. kr. Jeg held, að honum hafi gleymst liður í aukafjárlögunum, sem þó var ekki alllítill, yfir 20 þús. kr. Það væri því rjettara að telja dýrtíðaruppbótina að minsta kosti 440 þús. kr., og efast jeg um, að þá sje þó alt talið. (S. S.: Alveg rjett).

Háttv. Dala. (B. J.) hjelt því fram, að ekki ætti að líta á, hvort menn væru einhleypir, eða hvernig útkoma þeirra væri á annan hátt Jeg get ekki, hve feginn sem jeg vildi, fallist á, að skoðun hans um þetta sje rjett, enda mjer óskiljanlegt, að jafnvitur maður skuli halda henni fram. Ef ekki bæri að taka tillit til ástæðna manna, þá ættu allir að fá dýrtíðarhjálp, hve hátt sem launaðir eru.

Mjer skilst svo, að veita eigi uppbótina af sem mestri mannúð, að uppbótinni sje ætlað að koma í veg fyrir, að enginn þurfi að búa við sult og seyru með sig og sína. Þetta hefir og vakað fyrir bæði þingi og stjórn. Annars væri öllum veitt jafnhátt hundraðsgjald í uppbót, án tillits til launahæðar; þar, sem þeirri reglu hefir ekki verið fylgt, er ómögulegt að líta öðruvísi á en svo, að taka beri tillit til þess, hvort viðkomandi er fjölskyldumaður eða ekki.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) gat þess, að uppbótin væri af sumum þm. talinn fátækrastyrkur. Jeg hefli ekki heyrt nokkurn þm. láta sjer slíkt um munn fara, og verð að efast um, að hv. þm. (B. J.) fari hjer með rjett mál.

Þá talaði háttv. V.-Sk. (G. Sv.) í sinni löngu ræðu um, að hver maður verði að hlýða samvisku sinni og sannfæringu um þetta efni. Það var vel og viturlega mælt, og tek jeg þá áminningu fyrir mitt leyti vel upp.

Þá talaði hann mörg og fögur orð um, hve sanngjarn grundvöllurinn væri, sem var lagður í vetur. Jeg hefi síðan verið að velta því fyrir mjer, hvort hann hafi ekki verið einn af þeim, sem lögðu þann grundvöll. Og jeg vona, að hann fyrirgefi mjer, þótt mjer fyndist hann viðhafa nokkuð sterk orð um ágæti hans. Hann sagði og, að þingmenn slægju á þá strengi heima í hjeruðum, að uppbótin væri gustuk. Jeg verð að mótmæla þessu hvað mig snertir, og jeg þykist þess vís, að þessar aðdróttanir háttv. þm. (G. Sv.) eru algerlega gripnar úr lausu lofti og mega teljast, vægast sagt, ómaklegar.

Því hefir verið slegið fram af hæstv. fjármálaráðherra (B. K.), að stjórnin hafi í frv. sínu ekki farið nógu langt í tillögum sínum; hún hefði sjeð það, að sanngjarnt hefði verið að fara lengra. Mjer kemur þetta undarlega fyrir, því að ef stjórnin hefði talið sig eiga að fara lengra, hefði hún átt að gera það, og ekki skirrast við það, þótt hún byggist jafnvel við, að þingið yrði svo ranglátt, að það vildi ekki taka sanngjarnar tillögur sínar til greina, því að vitanlega átti slíkt ekki að bægja henni frá að gera það, sem hún áleit skyldu sína. En betur hefði jeg kunnað við, úr því að frv. fer í gjaldaáttina, að stjórnin hefði um leið leitað heimildar til lántöku til að vega á móti gjaldaaukanum.

Þá skal jeg hverfa að öðru, og leyfa mjer að spyrja hæstv. stjórn, hvað hún meinar með því, er hún segir, að þessi og þessi embættismaður eða sýslunarmaður eigi að fá svo og svo háa hundraðsuppbót á launum sínum. Er það meining hennar, að draga eigi frá laununum kostnað þann, sem fylgir embættisrekstrinum, svo sem skrifstofukostnað og þess háttar, og reikna svo uppbótina af þeirri launaupphæð, sem þá er eftir? Jeg hefi ekki haft tök á að lesa, nema að litlu leyti, hinn langa lista um úthlutun dýrtíðaruppbótarinnar í vetur. Listi þessi hefir legið hjá háttv. bjargráðanefnd, og hefir því ekki verið til sýnis fyrir þingmenn yfirleitt, en jeg hygg þó, að frá muni hafa verið dreginn kostnaður við embættisrekstur hlutaðeigandi embættismanna. Um þetta vildi jeg fá að heyra yfirlýsingu hæstv. fjármálaráöherra (B. K.). Einnig vildi jeg leyfa mjer að spyrja um það, hvort póstar heyri undir þann flokk sýslunarmanna, sem hafa aðalstarf sitt í þágu hins opinbera. Mjer er það ekki vel ljóst, en jeg býst við, að stjórnin hafi lagt það niður fyrir sjer. Mín skoðun er, að þótt flestir póstar ef til vill hafi einhverja litla framleiðslu, þá sjeu póstferðirnar aðalstarf þeirra, en af tillögum stjórnarinnar, er fyrir liggja, fæ jeg ekki sjeð, að hún ætli þeim neina dýrtíðaruppbót, en að mínu áliti eru þeir einmitt manna maklegastir fyrir hana, margir hverjir.

Jeg mun með atkvæði mínu sýna, hverjum hlutanum jeg fylgi, en, eins og nú standa sakir, vildi jeg helst hafa getað fylgt minni hlutanum að máli, því að þess geng jeg ekki dulinn, að nú er brýnni þörf fyrir dýrtíðarhjálp en í vetur; þá hafði ekki helmingurinn af þeim, er hennar nutu, neina brýna þörf fyrir hana, enda er mjer ekki ókunnugt um það, að sumir, er hana fengu, notuðu hana ekki fyrir eyðslueyri.

Að endingu vil jeg taka það fram, að jeg tel það tæplega rjett að undanskilja alla þá, er einhverja framleiðslu hafa. Þau ákvæði munu koma harðast niður á prestunum, en auk þess, sem þeir eru margir hverjir mjög nýtir embættismenn, er efnahag margra þeirra þannig háttað, að þeir hafa mikla þörf fyrir dýrtíðarhjálp. En eftir því, sem um málið hefir verið talað hjer í hv. deild, býst jeg við, að stjórnin hafi nokkuð óbundnar hendur, eftir atvikum, hvað þetta snertir.