28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 954 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Gísli Sveinsson:

Jeg ætla að eins að geta þess, að mjer þykir þó heldur betra að heyra, að »meiri hluti« meira hluta bjargráðanefndar, sem vafasamt er um, að sje meiri hluti allrar nefndarinnar — en það leyfist víst ekki að spyrja, hvað þessi meiri hluti sje stór, — mjer þykir betra að heyra, að hann hefir fallist á brtt. þær, er jeg flyt, ef til vill báðar; jeg veit að minsta kosti, að meiri hluti bjargráðanefndarinnar allrar hefir fallist á þær, svo að maður sleppi nú að tala um minni hluta minni hlutans og meiri hluta meiri hlutans í þessari margklofnu, en virðulegu nefnd. Þessar 2 litlu till. miða að því að bæta ofurlítið frv., sem mjer ella alls ekki líkar. Sú fyrri fer fram á það að sleppa því ákvæði, að eftirlaunamanni, sem einnig er á starfslaunum, sje að eins goldin uppbót af hærri laununum, en í þess stað að leggja bæði launin saman og reikna uppbót af þeim í einu lagi. Þeir menn, sem þannig er ástatt um, hafa ef til vill einmitt fengið lág starfslaun með tilliti til eftirlaunanna, og það er því mjög ósanngjarnt að taka ekki tillit til þess, að þeim hefir verið ætlað að lifa af báðum laununum. Það, sem veldur því, að meiri hluti meiri hlutans hefir getað fallist á þessa tillögu mína, er víst það, að það eru ekki nema 2 menn á öllu landinu, sem þannig er ástatt um, og það, sem landssjóður þarf að borga meira fyrir bragðið, er ekki nema örfáar krónur, sem hann munar ekkert um, en þá mikið, eða að minsta kosti nokkuð. — Brtt. mín er því mjög rjettlát, enda hefir öll nefndin víst fallist á hana, þótt frsm. mesta hlutans (S. S.) segði, að hann ljeti hana hlutlausa.

Hin brtt. mín fer fram á, að stundakennurum landsskólanna verði veitt dýrtíðaruppbót. Í frv. voru teknir fastir kennarar landsskólanna, en slept þeim, sem ekki eru fastir; en aðalatriðið er, að þeir stundi kenslu við landsskólana sjer til lífsviðurværis, hvort sem þeir eru fastir eða ekki. Jeg hefi leyft mjer að orða þetta svo, og skal geta þess, að stundakennarar við landsskólana eru örfáir líka, og eiga fullan rjett að uppbót á kaupi sínu hjá landssjóði, á móts við aðra. Jeg tek þetta fram, að eins til skýringar, því að það tjáir ekki, að þeir verði ranglega settir hjá, þegar aðrir verkamenn landssjóðs fá uppbót á kaupi. Mjer heyrðist hv. frsm. (S. S.) ekki leggja mikið á móti þessu, og jeg veit með vissu, að meiri hluti allrar nefndarinnar er mjer sammála um þetta atriði. Jeg vona því, að báðar þessar brtt. mínar verði samþyktar.