28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg stend að eins upp til þess að lýsa yfir því, fyrir hönd minni hluta bjargráðanefndar, sem bar fram tillögur annars eðlis en þær, er fram gengu hjer í deildinni, að honum hefir ekki þótt sjer sama að bæta neitt úr þeim óskapnaði, sem hjer er á ferðinni og ofan á varð við síðustu umr. þessa máls, og hefir því ekki haldið neinn fund nje komið með neina brtt., því að við vorum vissir um, að ekki væri hægt að gera þennan óskapnað svo úr garði, að hann yrði ekki til vansæmdar fyrir þetta þing. Jeg get haft textann, sem tilheyrir þessum hátíðisdegi, en það er brtt. hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) á þgskj. 533. Hún sýnir eðli þessa máls, sem sje það, að þeir 2 flokkar embættismanna, sem eru jafnframt framleiðendur á vörur, svo sem mjólk, kjöt, smjör eða fisk, eiga ekki að fá uppbót á verðfalli peninga, en aðrir embættismenn, sem eiga fje á vöxtum, eiga að fá hana, og sýnir það samkvæmnina í tillögum þessa hv. meiri hluta. Alt sýnir þetta eðli þessara till., að þetta er styrkur, hjálp, en ekki það, sem það á að vera, nefnilega uppbót hins íslenska ríkis á sviknum gjaldeyri til þeirra, sem goldið er. Um það er að ræða, en annað ekki, hvort ríkið vill bæta starfsmönnum sínum það tjón, sem þeir verða fyrir af verðfalli peninganna. Þetta tjón stafar af því, að löggilt er að gjalda embættismönnum í peningum. Ef goldið væri í landaurum, þá kæmi það ekki fyrir. Hjer súpum við því seyðið af því, að við erum ekki eins vitrir og forfeður okkar voru, er þeir ákváðu landauragjaldið. Þeir sáu það, sem allir menn ættu að geta skilið, að verðmælir og gjaldeyrir er ekki eitt og hið sama og þarf ekki að falla saman.

Það hlýtur líka að vera öllum ljóst, að þar sem um er að ræða vinnuveitanda og verkamenn, þá skiftir það engu máli, hvernig hagur embættismannanna er. Það varðar engan um það, hvort þeir eru ríkir eða fátækir, giftir eða ógiftir, eða hvort þeir eiga mörg eða fá börn. Þeir eiga allir jafnt tilkall til uppbótar fyrir það tjón, sem þeir verða fyrir af þessum orsökum. Annað mál er það, að sumir menn eru fátækari en aðrir og þurfa því frekar á hjálp að halda, til að firrast vandræði. Þessir menn geta verið í embættismannastjettinni, eins og hvar annarsstaðar. En jeg vil taka það fram, enn þá einu sinni, áður en þetta mál fer hjeðan úr deildinni, síst af öllu embættismannastjettina. Hún er, sem betur fer, ekki það mösulbeina, að hætt sje við, að hún fari á vonarvöl á undan öllum öðrum. Embættismenn munu flestir hafa fleiri útvegi en sumir aðrir, hafa að minsta kosti meiri æfingu og leikni í því að ríða víxlum og fleyta sjer yfir örðuleikana á þann hátt. Þeir eiga ekki að þurfa að sýna vottorð frá hreppstjórum eða öðrum valdsmönnum um það, hvort þeir eiga kýr eða kindur, eins og brtt. hv. 2. þm. S.-M. (B. St.) virðist ætlast til. Það hefði þá verið betra að láta hreppsnefndirnar gefa vottorðin, svo að embættismennirnir væru settir alveg á sveitina. Annars ætla jeg ekki að fara fleirum orðum um lagasmíð þessa. Jeg álít hana í alla staði ósæmilega, og þinginu með öllu óheimilt að styrkja eina stjett manna fremur öðrum.