28.08.1917
Neðri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Einar Arnórsson:

Jeg ætla ekki að tefja tímann á því að fara inn á eðli málsins. Háttv. þm. Dala. (B. J.) hefir gert það svo rækilega, að við það er engu að bæta. En það er eitt atriði í 3. grein, sem þarf að vekja athygli á. Eins og greinin er nú orðuð kemur hún algerlega í mótsögn við sjálfa sig. — Eitt rekur sig á annars horn. — Í greininni stendur, að af launum, sem eru 2500 kr. eða minna, skuli uppbótarprósentan vera 25%. En rjett á eftir stendur, að millibilið milli launaupphæða þeirra, sem nefndar eru, skuli reiknað eftir líkingunni:

y = 62,5 ÷ 0,015 x,

þar sem x táknar launaupphæðina í krónum, en y uppbótarprósentuna. Líkingin er hárrjett, en úr því að reikna á eftir líkingunni, þá er ekki rjett, að prósentan, sem nefnd er með upphæðinni í frv., gildi fyrir annað en þá upphæð eina. Þetta er ekki rjett orðað í frv., eins og það er nú. Eftir því, sem orðin hljóða í upphafi greinarinnar, verður ekki annað sjeð en að uppbótarprósentan af 2000, kr. laununum verði t.d. 25%. En ef reiknað er eftir líkingunni, kemur alt annað út. Þá verður uppbótarprósentan af 2000 kr. launum 32,5. Strikin á milli upphæðanna og prósentutalnanna í greininni eiga að hverfa. Þau stóðu þannig í stjórnarfrv. Þetta hefði mátt laga í prentuninni, en hefir ekki verið gert. Það er því bæði stjórn og nefndinni að kenna að þessi strik standa þarna, þótt þau eigi ekki að vera. Það gáleysi allrar nefndarinnar og því get jeg ekki leitt hjá mér að benda á það, þó jeg eigi engan þátt í meðferð nefndarinnar á þessu frv. að öðru leyti. En það er líka gáleysi stjórnarinnar.