08.09.1917
Efri deild: 51. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Eggert Pálsson:

Jeg ímynda mjer, að öllum háttv. þm. finnist hjer vera úr vöndu að ráða, líkt og mjer, og því fremur aukast vandræðin fyrir okkur, sem nú eigum við að greiða atkvæði um mál þetta, þar sem tíminn er afarnaumur til þess að hugsa um það. Útkoman á þessu máli verður hin sama og átti sjer stað í vetur, að það var ekki fyr en á allra síðustu stundu, að málið barst upp til þessarar deildar, og því afarnaumur tími til þess að afgreiða það. Þetta er mjög tilfinnanlegt, þar sem hjer er um mjög þýðingarmikið mál að ræða.

Í vetur var það svo, að þrátt fyrir það, að jeg greiddi atkvæði með þingsályktunartillögunni í þessari háttv. deild, sem einnig náði samþykki sameinaðs þings, þá var jeg engan veginn ánægður með hana. Jeg gat þess þá þegar við framsöguna hjer í deildinni, en þá voru ekki nema tveir kostir fyrir hendi, annaðhvort að samþykkja þingsályktunartill., eins og háttv. Nd. hafði skilið við hana, eða þá að samþykkja till. fjárveitinganefndar Nd., sem við höfðum líka fyrir okkur. Og af þessum tveim kostum geðjaðist mjer betur að till. fjárveitinganefndar heldur en að þingsályktunartill., eins og gengið var frá henni í Nd. Jeg sagði þá, að málið væri með báðum aðferðunum, sem fyrir lágu, gert altof flókið, og er jeg enn á sömu skoðun. Jeg hygg, að einfaldasta leiðin væri sú, að veita ákveðna »procent«- upphæð af ákveðinni krónutölu framan af launum hvers einstaks manns, t. d. 50% af fyrstu 1500 krónunum, sem hver einstakur maður hefði í kaup, og þaðan af lægra, en enga uppbót af því, sem þar lægi fyrir ofan. Með því móti dylst engum það, að málið yrði miklu einfaldara, og eigi að eins það, heldur einnig miklu rjettlátara, því að þessar 1500 krónur eru það, sem hver einn ver vitanlega til brýnustu lífsnauðsynja sinna. Og er þá ekki nema eðlilegt, að uppbótin væri greidd af þeim, en hitt, sem liggur þar fyrir ofan, væri látið afskiftalaust, þannig að engin uppbót væri greidd af því. Vitanlega kannast jeg við það, að þetta er lítið, en við verðum að líta á það, að kringumstæður landssjóðs eru knappar; hann á ekki hægt með að róta út fje, eins og þeir, sem reka stórverslanir; þá munar ekkert um það, þótt þeir greiði hátt kaup sínum fáu starfsmönnum, og vinna það aftur upp með ýmsu móti. En eins og nú er stenst landssjóður ekki við það að greiða það til fullnustu, sem rjettlátt og sanngjarnt er. Jeg veit, að þeir, sem hafa há laun, bera alveg sömu uppbót frá borði og þeir, sem lág laun hafa, ef minni tillögu væri fylgt, en það gengur ætíð svo, að mismunur verður á launum hvort sem er, og hinir, sem lægra eru launaðir, mundu ekki sjá ofsjónum yfir því, þó að þeir, sem hærra eru launaðir, fengju sömu launauppbót og þeir. Við verðum að ganga út frá því, að launin, eins og þau eru nú, sjeu rjettlát, því að ef við viðurkennum, að þau sjeu ranglát, eins og þau eru, þá væri sjálfsagt að taka allan launabálkinn fyrir og reyna að gera hann rjettlátan. En með því að greiða »procentvis«, eins og stungið er upp á eftir báðum þessum tillögum, sem fyrir liggja, bæði frv. og brtt. nefndarinnar, næst ekkert rjettlæti, því að ef grundvöllurinn, sem á er bygt, skoðast ekki sem rjettlátur, verður sama órjettlætið áfram, þótt »procentunum« sje bætt við.

En nú liggur engin brtt. fyrir í þessa átt, sem jeg hefi bent á að fara mætti og fara ætti, og jeg veit ekki, hvort jeg get komið því við að flytja hana til 3. umr. Jeg gerði það að vísu ekki í þeirri von, að hún næði fram að ganga, heldur til þess að gefa háttv. þm. kost á að greiða atkvæði um hana. En það verð jeg að segja, að mjer finst meira rjettlæti felast í sumum brtt, sem fyrir liggja, heldur en frv., sjerstaklega 4. og 5. brtt. nefndarinnar, sem, eins og háttv. frsm. (G. G.) sagði, verða að skoðast í sambandi hvor við aðra. Þetta hygg jeg rjettlátara hjá háttv. nefnd, því að, eins og það stendur í frv., er það alveg óframkvæmanlegt. Það dregur alla dýrtíðaruppbót af þeim, sem nokkra framleiðslu hafa til lands eða sjávar, sem nokkru nemi. Slíkt ákvæði er eigi að eins ranglátt, heldur einnig lítt framkvæmanlegt, vegna þess, að það er enginn fær um að kveða upp dóm um það, hvað nokkru nemi.

Þess vegna álít jeg, að þessi brtt. nefndarinnar miði til bóta. Aftur á hina hliðina finst mjer 11. brtt. nefndarinnar vera óþörf; jeg álít, að nægilegt spor hafi verið stigið í þá átt með því, sem háttv. Nd. gerði, að veita 50 krónur fyrir hvern framfæring, og því óþarft að hækka það. Aftur á móti er jeg l2. brtt. gersamlega samþykkur, enda er, eins og áður hefir verið tekið fram, sjálfsagt, að sú brtt verði samþykt.

Jeg hleyp svo yfir hinar aðrar brtt. nefndarinnar, vegna þess, að jeg felli mig ekki við þær, nje heldur við 3. gr. frv., eins og hún liggur fyrir, en samt er það svo, að þegar til atkvæðagreiðslu kemur, þá býst jeg við, að jeg verði neyddur til að hallast að öðru hvoru. Og finst mjer þá rjettara að láta frumvarpsgreinina standa, því að það er þýðingarlaust frá minni hálfu að greiða atkvæði með brtt. við hana, sem jeg er eigi heldur ánægður með, og allra helst þar sem jeg hefi í hyggju að koma fram með brtt. við greinina alla við 3. umr.