13.09.1917
Efri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 985 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Í tilefni af ummælum þeim, er fallið hafa um, að gleymst hafi að fá álit fjárveitinganefndar um fyrstu tvö málin á dagskránni, dýrtíðaruppbótina og dýrtíðarhjálpina, þá vil jeg taka það fram, að þetta kom meðfram af því, að meiri hluti fjárveitinganefndar átti sæti í bjargráðanefndinni, svo að þar með var trygt samþykki fjárveitinganefndar, og því ekki annað en þýðingarlítið form að fá álit hennar um málið. Þetta getur því ekki haft nein áhrif á það.

Jeg vil taka það fram, að mjer hefir ekki borist frv. í hendur, og hefir nefndin því ekki rannsakað, hvernig frv. horfir nú við eftir prentunina.

Úr því að jeg stóð upp, þá vil jeg taka fram eitt atriði, sem jeg gleymdi í gær. Samkvæmt till. nefndarinnar var feld niður 2. gr. frv., og komu engin mótmæli fram gegn því hjer í háttv. deild. En svo stóð á þeirri grein, að einn maður, dr. phil. Björn Bjarnason, hefir vegna heilsuleysis fengið aðra menn til þess að gegna kennarastarfa sínum. Þessir menn hafa ekki starfað að þessu eftir samningi við hann, heldur við stjórnina eða stjórn skólans, og í vetur greiddi stjórnin þeim dýrtíðaruppbótina, og það þótt engin grein sem þessi væri í þingsályktun aukaþingsins. Nefndin leit því svo á, að þessi grein væri óþörf, en að stjórnin ætti í framtíðinni að fylgja í þessu efni þeirri reglu, sem hún tók upp í vetur.

Að fara að rekja frv. að öðru leyti finn jeg ekki ástæðu til, en treysti því, að háttv. deild samþ. frv. þetta sem næst í einu hljóði.