14.09.1917
Neðri deild: 60. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

16. mál, dýrtíðaruppbót handa embættis- og sýslumönnum landssjóðs

Frsm. meiri hl. (Sigurður Sigurðsson):

Um leið og jeg stend upp heyri jeg þess óskað alt í kring um mig, að jeg taki aftur brtt. okkar þm. Borgf. (P. O.). En hvað sem um það verður, þá verð jeg að gera grein fyrir þeim, úr því að þær eru fram komnar, og afstöðu okkar flutningsmannanna til þessa máls.

Hv. þm. S.-Þ. (P. J.) hefir gert grein fyrir breytingunum, sem Ed. hefir gert á frv. Jeg skal ekki endurtaka það. En þess vil jeg geta, að frv. er mjög viðunanlegt, eins og það var er það var afgreitt hjeðan frá deildinni, og hefðu víst flestir deildarmenn getað sætt sig við, að það hjeldist óbreytt. En Ed. hefir litið öðrum augum á málið. Tvö hámörk hefir hún flutt upp, launahámarkið úr 3500 í 4600 kr., en hitt, meðlagið eða tillagið til framfæringa, barna og foreldra, úr 50 kr. í 70 kr. Þá hefir deildin fært upp launatakmarkið hjá einhleypum mönnum. Loks hefir hún og ákveðið, að þeir, sem hafa framleiðslu, skuli og verða uppbótarinnar aðnjótandi. Allar eru þessar breytingar til stórspillis. Þær auka útgjöld landssjóðs og hafa misrjetti í för með sjer. Við háttv. þm. Borgf. (P. O.) höfum því komið með brtt. á þgskj. 947, sem miða að því að færa frv. í samt lag aftur.

En hvaða útlit er nú fyrir, að brtt. verði samþ.? Jeg tel líklegt, að þær verði samþ. hjer í Nd., og þó er engin vissa fyrir því.

Fyrst og fremst voru þeir, sem að frv. stóðu hjer í deild, nefndarmennirnir 5. En nú eru 2 þeirra gengnir úr skaftinu og horfnir yfir í fjandaflokkinn, og einn er orðinn mitt á milli; svo að nú erum við ekki orðnir eftir nema tveir einir af nefndarmönnum, jeg og hv. þm. Borgf. (P. O.), sem höldum fast við frv., eins og það var þegar það fór hjeðan úr deild. Þó býst jeg við, að brtt. okkar muni komast fram hjer í deild. En hvernig mun þá frv., þannig breyttu, reiða af í háttv. Ed.? Þar hefir embættismannavaldið tekið sig saman um að berjast á móti öllum breytingum, og barist með hnúum og hnefum móti hverskonar miðlun, nema þá með þeim afarkostum, sem okkur þóttu óaðgengilegir. Svona eru þeir ósáttfúsir, oddborgararnir og embættisgarparnir í háttv. Ed. Afleiðingin af þessari afstöðu háttv. Ed. er auðsjáanlega sú, að ef frv. kemur upp í þá deild með þeim breytingum, sem við viljum koma að, og líklega getum komið að hjer, þá mun háttv. Ed. aftur breyta því í sama horf sem það var í þegar það fór þaðan, og málið því lenda í sameinuðu þingi. En hverjar verða horfurnar þar? Jeg geri ráð fyrir, að brtt. okkar fái hjer í deild um 14 atkvæði, og í Ed. geri jeg ekki ráð fyrir, að fleiri en 2 verði þeim fylgjandi. Það eru þá alls 16; en á móti má búast við að verði 23—24. Það er því sýnt, að þessi brtt. okkar muni ekki ganga í gegn í sameinuðu þingi. Þetta er alt nákvæmlega athugað og lagt niður samkvæmt atkvæðagreiðslum um málið í báðum deildum og liðskönnun, sem nú hefir verið gerð. Að halda brtt. til streitu er því eigi til annars en að auka þras og umræður um málið, og ef til vill að lengja þingið. Við, sem brtt flytjum, og fylgismenn okkar, erum komnir í minni hluta í þinginu.

Því er nú og að öðru leyti svo varið, að sumir, sem breytingu vilja, vilja þó ekki tefla málinu í tvísýnu. Mjer fyrir mitt leyti er nokkurn veginn sama, hvað um það verður, úr því sem komið er, því að þessi frágangur á því er lítt viðunanlegur, og háttv. Ed. til stórskammar. Þrátt fyrir óánægju mína með málið, eins og háttv. Ed. hefir gengið frá því, greiði jeg þó líklega ekki atkvæði móti frv. Geri jeg það eingöngu vegna ýmsra manna, sem verðugir eru að fá þessa uppbót. Jeg geri það vegna hinna fátæku og lágt launuðu, sem þó gegna starfi sínu eins vel, eða betur, en hinir með hærri launin.

Jeg lýsi yfir því að lokum, að af því, að brtt. okkar eru dauðadæmdar í sameinuðu Alþingi, þá tökum við þær aftur. Þó er það ekki með glöðu geði gert. En maður verður hjer að beygja sig fyrir ofbeldinu og ofureflinu, ofjörlunum og embættismannavaldinu, nú eins og svo oft áður.