27.07.1917
Neðri deild: 19. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

22. mál, vörutollur

Fjármálaráðherra (B. K.):

Stjórnin hefir leyft sjer að leggja fyrir Alþingi frv. til laga um framlengingu á gildi vörutollslaganna. Á þinginu 1915 var með lögum nr. 6, 3. nóv., ákveðið, að þessi lög skyldu gilda til ársloka 1917 ásamt viðaukum. Liggur í augum uppi, að eigi landið að njóta þessara tekna næsta fjárhagstímabil, verður að framlengja lögin.

Eins og tekið er fram í ástæðum frv. þótti rjettast að setja framlengingunni ekkert tímatakmark, og má vitaskuld taka vörutollslögin til endurskoðunar, eða jafnvel nema þau úr gildi, þegar tök þykja til, hvort sem nokkurt tímatakmark er sett eða ekki. En vitaskuld veitir ekki af að halda þessum tekjum, einkum ef svo fer, að verðhækkunartollurinn verður numinn úr gildi.

Nokkrir háttv. þm. hafa minst á það við mig, að þægilegra væri fyrir reikningshaldara og innheimtumenn, að vörutollslögin væru dregin saman í eina heild. Jeg get fullkomlega fallist á þetta og mun láta stjórnarskrifstofuna gera það, ef svo sýnist. Þykir mjer þó leiðara að hreyfa nokkuð við lögunum, þar sem grundvelli þeirra var raskað 1914. Mun jeg þó ekki setja það fyrir mig, ef deildin vill svo vera láta. Skal jeg láta undirbúa málið og afhenda síðan væntanlegri nefnd.

Vil jeg að svo mæltu leyfa mjer að stinga upp á því, að málinu verði vísað til fjárhagsnefndar, að lokinni þessari umr.