13.08.1917
Efri deild: 29. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1001 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

22. mál, vörutollur

Frsm. (Halldór Steinsson):

Jeg ætla ekki að hafa langa framsögu í þessu máli, því að sú leið, sem fjárhagsnefndin hefir farið, er svo sjálfsögð, að tæplega er önnur farandi.

Mig furðar á, að frumvarpið skyldi ekki liggja fyrir í byrjun þingsins frá hæstv. stjórn, þar sem hún þó áætlar vörutollinn tekjumegin í fjárlagafrv. fyrir 1918—1919. Það lítur svo út, sem hún hafi gleymt því, að lögin áttu að falla úr gildi við næstu áramót.

Flestir viðurkenna, að landssjóði veiti ekki af þeim tekjum, sem honum eru áætlaðar í fjárlögunum, fyrir því, að sýnilegt er, að útgjöldin verða hærri en tekjurnar, sem og er ekki heldur að furða á þessum tímum. Í fjárlagafrv. er vörutollurinn áætlaður 350000 kr. á ári eða 700000 á fjárhagstímabilinu. Þetta er svo álitleg fúlga, að ekki er hugsanlegt, að hún sje feld burt, nema skattalöggjöfinni sje gerbreytt. En til þess er hvorki tími nje ástæður á þessu þingi. Annars álít jeg þá fjármálastefnu rjettasta, eins og nú standa sakir, að róta sem minst við tollalöggjöfinni, en halda sjer við gamla fyrirkomulagið, að svo miklu leyti sem hægt er. Jeg er algerlega móti því, að lagðir sjeu á þjóðina nýir tollar. En þessi tollur er ekki nýr; hann hefir verið í gildi síðan árið 1912, og jeg álít óhjákvæmilegt að halda honum. Hins vegar áleit nefndin ekki þörf að framlengja tollinn lengur en næsta fjárhagtímabil, því að gera má ráð fyrir, að nauðsyn beri til að breyta tollalöggjöfinni eftir stríðið.

Jeg vonast þess vegna til, að háttv. þingdeild samþykki frumvarpið.