13.08.1917
Neðri deild: 32. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1003 í B-deild Alþingistíðinda. (536)

153. mál, vitagjald

Fjármálaráðherra (B. K.):

Stjórnin hefir leyft sjer að koma með þetta frv. í því skyni að auka tekjur landssjóðs dálítið. Við búumst að vísu ekki við, að þetta verði neinn stórvægilegur tekjuliður, en hins vegar mælir öll sanngirni með því, að vitagjald hjer sje hækkað. Hjer á landi hafa margir vitar verið reistir undanfarin ár, og enn aðrir, sem nú eru í byggingu, og það virðist því vera full ástæða til að gera vitagjaldið hjer eitthvað í áttina við það, sem tíðkast erlendis.

Eins og mönnum er kunnugt þá er hjer að eins tekið vitagjald af skipum er þau koma, en erlendis er það siður, að þau gjaldi vitagjald bæði þegar þau koma og fara. Það hefir að vísu verið meiningin áður að kippa þessu í lag, en þó ekki orðið úr; menn hafa verið að bíða eftir því, að gerlegt þætti að tvöfalda gjaldið frá því sem nú er, en jeg sje enga ástæðu til að bíða svo lengi eins og það getur dregist, heldur megi hækka nokkuð nú þegar. Stjórnin hefir því komið sjer saman um að leggja það til, að vitagjaldið verði hækkað um 10 aura fyrir hverja smálest á erlendum skipum, en ársgjald fyrir innlend skip verði hækkað úr 4 kr. upp í 6 kr.

Eins og menn geta sjeð þá er þetta frv. því nær orðrjett afskrift af frv. 1913, nema hvað tölum er breytt á tveim stöðum, og má því eiginlega skoða það sem fyrirfram samþ., ef menn fallast á hækkunina. Okkur hefir talist svo til, að þessi mismunur mundi hlaupa alt að 26½ þús. kr., miðað við siglingarnar 1914, það er að segja fyrir stríðið. Jeg hefi svo ekki meira að segja um þetta mál, en vil mælast til, að því verði vísað til fjárhagsnefndar.