25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

153. mál, vitagjald

Magnús Kristjánsson:

Jeg get ekki verið samdóma hv. þm. Ísaf. (M. T.) um það að skora á væntanlega nefnd að hækka vitagjaldið enn meir en frv. fer fram á. Hitt væri sanni nær að lækka gjaldið frá því, sem gert er ráð fyrir í frv.

Það er ekki viðkunnanlegt, að menn greiði gjald fyrir það, sem þeir fá ekki. Og svo mun oft vera um þetta gjald, að menn greiði það án þess að hafa not af vitunum. Það hagar nú svo til hjer á landi, að vitar koma eðlilega ekki að neinum notum mikinn hluta árs. Öll skip, er sigla til landsins á þeim tíma, verða einnig að greiða vitagjald. Hjá því verður ekki komist, en því meir sem gjaldið er hækkað, því ranglátara kemur það niður. Hitt er eðlilegra, að ástæða er til að hækka gjaldið jafnóðum og vitum fjölgar og skipaleiðirnar verða nokkurn veginn tryggar. En með þeim vitum, sem við eigum nú, finst mjer fullfreklega farið í að hækka gjaldið.

Jeg skal leyfa mjer að drepa á annað mál, er stendur í nánu sambandi við þetta. Í þingbyrjun kom inn á þingið frv., sem fer fram á það, að tekin sje nú þegar ákvörðun um að gera meira að vitabyggingum framvegis en hingað til hefir verið gert. Jafnframt var lagt fram yfirlit yfir það, hvernig vitamálastjóri hugsaði sjer vitana reista. Frv. þetta hefir tafist af einhverjum orsökum í sjávarútvegsnefnd Nd., og hefir því þessi háttv. deild ekki átt kost á að athuga það. Því er að vísu útbýtt í dag, en það er nokkuð seint. Þetta tel jeg illa farið. Hefði frv. komið úr nefnd á rjettum tíma og væri nú komið það á leið, að menn gætu sjeð, að þingið tæki vel í það, þá væri þetta frv. verjandi. En meðan það er ekki komið lengra og óvíst er, hverjar undirtektir það fær, tel jeg ekki fært að hækka vitagjaldið meir en þetta frv. fer fram á að gert verð.