25.08.1917
Efri deild: 39. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1007 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

153. mál, vitagjald

Magnús Torfason:

Jeg sje, að við háttv. þm. Ak. (M. K.) lítum talsvert ólíkum augum á þetta mál.

Jeg veit ekki betur en að kostnaður við vitana fari þegar fram úr því, sem vitagjaldinu nemur. Og við vitum einnig, að þótt frv. um vitagerð verði eigi að lögum í þetta sinn, þá hefir þó þegar verið ákveðið að reisa nokkra vita með allmiklum kostnaði.

Það er ekki hægt að segja, að vitagjaldið sje greitt fyrir ekki neitt. Þótt ekki þurfi á vitunum að halda á sumrin, þá sje jeg ekki, að landið eigi að gjalda þess, að við höfum næga birtu. Það er sá stóri og góði allsherjarviti, sem við eigum, og sje jeg ekkert á móti því, að við njótum hans líka.

Gjaldið legst aðallega á útlendinga. Og, eins og jeg tók fram áðan, verða farmgjöldin svo gífurlega há, að ekkert tillit verður tekið til þessa smágjalds; það verður hverfandi. Loks er sú ástæða, sem jeg einnig drap á, að vitasmíð er orðin miklu dýrari en áður, og því eigi nema sanngjarnt, að gjaldið verði hækkað.