01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (554)

153. mál, vitagjald

Magnús Kristjánsson:

Jeg var því miður ekki við til að hlusta á ræður þær, sem fluttar hafa verið í máli þessu. Má því búast við, að orð mín verði eins og úti á þekju.

Mjer fanst, að síðustu ummæli háttv. þm. Ísaf. (M. T.) um, að hækkun sú, er hann fer fram á, væri rjettmæt, vera á litlum rökum bygð. Jeg vildi frekar segja, að þau sjeu ástæðulaus.

Jeg ætla ekki að fara langt út í málið, en vil þó benda á það, að þörf væri á að fá nánari skýrslur en þær, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) las upp og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) þóttist finna ástæðu til að byggja á þá skoðun, að rjettlátt væri að hækka gjaldið svo mjög.

Þess ber að gæta, að margir af þessum 30 vitum, sem háttv. þm. (H. St.) mintist á, eru að eins smávitar, og lítil ástæða að taka til greina alla smávita, sem að eins gagna litlu svæði, þegar setja á reglur um vitagjald á stóru svæði. Útreikningur háttv. þm. Ísaf. (M. T.) er því ekki á rökum bygður.

Þá má sýna fram á það, að gjaldið mundi verða tilfinnanlega hátt fyrir innlend skip, ef það yrði hækkað eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.) fer fram á. Tökum t. d. 1000 smálesta skip, sem að vísu eru ekki mörg, en vonandi fer fjölgandi. Ef þau sigldu 8—10 ferðir á ári milli landa, mundi gjaldið nema 3000—3500 kr., og getur það ekki talist neitt smáræði.

Þá er því haldið fram, að best sje að hafa gjaldið sem hæst, til þess að ná sem mestu fje af útlendingum. En jeg er nú þeirrar skoðunar, að landsmenn mundu fljótt kenna þess á vöruverði, því að auðvitað er vitagjaldið talið með flutningskostnaði. Ávinningurinn mundi því ekki verða svo mjög mikill. Jeg dreg það því í efa, að þetta reynist hyggindapólitík hjá háttv. þm. Ísaf. (M. T.).

Jeg færði rök fyrir því við 1. umr., að vitagjaldið megi alls ekki hækka meir en farið er fram á í frv. Að vísu getur hugsast, að það geti átt sjer stað einhvern tíma í framtíðinni, þegar búið er að fullgera vitakerfi landsins.

Ekki get jeg sjeð, að nokkurt vit sje í því, að vitagjaldið eigi að bera bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað vitanna árlega. Jeg þekki ekki nein þau fyrirtæki hjer, sem borið geti það hvorttveggja þegar á fyrsta ári.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða frekar um málið, en mun greiða atkvæði á móti brtt. háttv. þm. Ísaf. (M. T.), og vænti þess, að háttv. deild felli hana.