01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1014 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

153. mál, vitagjald

Eggert Pálsson:

Jeg þarf ekki að vera langorður, því að mál þetta snertir mig lítið sem landbúnaðarmann.

En það voru nokkur orð í ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.), sem komu mjer til þess að standa upp. Hann kvaðst ekki þekkja neitt stórfyrirtæki, sem borgaði bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað þegar á fyrstu árum. En jeg vil benda honum á eitt. Það er ritsíminn. Og mjer finst ekki óhugsandi, að þetta gæti gert það líka.

Ef svona framfarafyrirtæki geta ekki borið sig sjálf, hvaðan eigum við þá að taka fje til þeirra? Jeg lít svo á, að við höfum ekki fje aflögu til þeirra, ef þau gefa ekkert í aðra hönd.

Annars virðist mjer ágreiningurinn í máli þessu rísa af helst til smávægilegu atriði, þar sem augsýnilega vakir hið sama fyrir báðum málsaðiljum, sem sje það að bæta sem best fyrir siglingum og útvegi hjer við land. Og það liggur í augum uppi, að sú stefnan, að hækka vitagjaldið, leiðir til þess, að flýtt verði vitabyggingum, en hin stefnan, að hafa það sem lægst, seinkar þeim. Jeg mun því greiða atkv. með brtt.