01.09.1917
Efri deild: 45. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (559)

153. mál, vitagjald

Frsm. (Halldór Steinsson):

Mjer fanst kenna töluverðs misskilnings í ræðu hv. 1. þm. Rang. (E. P.). Hann vildi líkja þessu máli við símann. En þar er tvennu óskyldu saman jafnað. Allur þorri þjóðarinnar hefir gagn af símanum, en að eins ein stjett manna af vitunum. Hv. þm. (E. P.) vildi þó halda því fram, að vitarnir ættu að borga sig á sama hátt og síminn. En það er fjarstæða, enda fanst mjer þingmaðurinn hrekja það í öðru orðinu, sem hann vildi sanna í hinu. Hann bar þetta fyrirtæki saman við ýms fyrirtæki, sem ekki borga sig í náinni framtíð. Sum fyrirtæki borga sig aldrei, t. d. spítalar, og jafnvel kvennaskólinn, sem hann tók til dæmis. (E. P.: Það á alt að borga sig). Ummæli háttv. þm. (E. P) eiga því ekki hjer heima.

Þá hjelt háttv. þm. (E. P.), að hækkun vitagjaldsins mundi flýta fyrir vitagerðum. En jeg hygg, að það þurfi ekki að verða, því að engin trygging er fyrir, að þessu fje verði varið til vita. (Atvinnumálaráðh.: Jú, það verður, þegar fjárhagur landssjóðs og vitanna er aðgreindur.)