04.09.1917
Efri deild: 47. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

153. mál, vitagjald

Magnús Torfason:

Háttv. þm. Ak. (M. K.) talaði um, að jeg mundi vilja tala síðast. En það er engin ástæða fyrir hann að núa mjer því um nasir í þessu máli, því að þegar það var hjer til 2. umr., talaði háttv. þm. Ak. (M. K.) ekki fyr en jeg var dauður, og slíkt hefir oftar komið fyrir. Þess vegna hafði jeg þá ekki ástæður til að svara honum.

Jeg fæ ekki sjeð, að þessi hækkun sje þýðingarlaus; hún er þó helmingur af hækkun stjórnarinnar.

Jeg hefi ekki ætlað mjer að segja annað en það, sem jeg gæti staðið við. Jeg minnist þess, að það eru fleiri en þessi útlendi skipstjóri, sem þykir vitagjaldið oflágt. Jeg hefi orðið víðar var við það og heyrt menn taka í sama strenginn. Gjaldið er afarlágt; það kemur helst niður á »Rute«-skipum, sem fara þetta 6—7 ferðir, og þá er ágóði þeirra líka svo mikill, að þau eiga að geta þolað það. Mjer er líka kunnugt um það, að þessi gjöld eru víða há í öðrum löndum, og þykir mjer undarlegt, að háttv. þm. Ak. (M. K.) skuli vera á móti því að hækka þetta gjald. Hann er með því að fá vitana, en við »sjávarþorparar« höfum ekki svo góðan byr til að ná í eitthvað gott, sem að sjávarútveginum lýtur, að við verðum að vera við því búnir að taka gjöld á okkur, og þegar við getum gert það á þann hátt, að það verði ekki tilfinnanlegt fyrir landið, þá hjelt jeg, að þetta væri góður tekjustofn.