24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Hákon Kristófersson:

Mjer þykir hlíða að segja að eins örfá orð um örlitla brtt., sem jeg hefi borið fram á þgskj. 578. Það hefir nú verið á það minst, og ekki að ástæðulausu, að þingmenn ættu ekki að gera sjer leik að því að auka útgjöld landssjóðs. Jeg hefi nú ekki mikið að þessu gert, fyr en jeg kom með þessa brtt. sem gengur í þá áttina, þótt í smáum stíl sje. Kona þessi er ekkja eftir Lorange lyfsala í Stykkishólmi. Hún misti manninn fyrir mörgum árum síðan. Við lát hans var hagur búsins fremur bágborinn, en konan ætlaði að halda lyfjabúðinni, til framfæris sjer og börnum sínum. Af ástæðum, sem varla er vert að tala mikið um hjer, varð það samt niðurstaðan, að þrátt fyrir fengið leyfi frá því opinbera, var lyfjabúðin tekin af henni og seld öðrum í hendur. Verð jeg að álíta, að sú aðferð væri vægast sagt miður rjettlát. Með þetta fyrir augum ber jeg fram þessa brtt. og ætlast ekki til að upphæðin standi áfram, heldur sje að eins veitt í eitt skifti. Þessi litla upphæð á því að vera lítilsháttar þóknun eða uppbót fyrir þessi mistök, sem áreiðanlega hafa átt sjer stað. Jeg vænti svo góðs af þinginu, að það sýni konu þessari þá mannúð, að samþykkja þennan litla styrk, sem er svo hóflegur, að veiting hans hefir enga fjárhagslega þýðingu fyrir landssjóð. Eftir að konan fór frá lyfjabúðinni, flutti hún til Reykjavíkur og hefir dvalið hjer síðan. Aðstandendur á hún enga, en þarf að sjá fyrir þremur börnum, svo að geta má nærri, að þröngt sje í búi hjá henni. Persónulega þekki jeg konuna lítið, en mjer er sagt, að hún lifi í mestu fátækt, og mundi alls ekki komast af, ef hún nyti ekki lítilfjörlegs styrks frá góðgjörnum mönnum, sem hafa verið henni velviljaðir, og haft auga fyrir hennar þröngu kringumstæðum en eru þó sumir hverjir henni alls ekki vandabundnir. Jeg get ekki búist við, að þessi styrkur verði talinn fátækrahjálp eins og hjer hefir verið slegið fram, þótt hann verði veittur. Ef þetta væri kallaður fátækrastyrkur, þá mættu sumar tillögur háttv. fjárveitinganefndar nefnast því nafni. Jeg finn enga ástæðu til, að fara fleiri orðum um þessa tillögu, en treysti þingmönnum til að veita þessa litlu upphæð, sem er ekki nema stundarstyrkur.

Það virðist ganga gegnum deildina, að allir, sem standa upp þakka fjárveitinganefnd fyrir frammistöðuna. Jeg held jeg sje ekki þeim mun vanþakklátari en aðrir, þótt jeg finni ekki beinlínis hvöt hjá mjer til að taka í sama strenginn.

Eitt atriði finn jeg mjer þó skylt að vera háttv. nefnd þakklátur fyrir. Það er hækkunin á styrknum til Helga Hermanns Eiríkssonar. Þessi maður sendi beiðni til aukaþingsins í vetur um 3000 kr. styrk eða rúmlega það, og færði svo veigamikil rök fyrir þessari styrkbeiðni, að engum, sem hefði lesið þau plögg yfir, gæti dottið í hug að vera á móti því, að veita honum hinn umbeðna styrk. Jeg var beðinn að beina þessari beiðni til þingsins, en sá ekki til neins að koma fram með hana á aukaþinginu í vetur. Heldur tók jeg þann kostinn, þar sem svona stutt var til þess, er fjárlagaþing átti að vera, að snúa mjer til stjórnarinnar með umsóknina, í þeirri von, að hún sæi sjer fært að taka alla upphæðina upp í fjárlögin. Umsókninni fylgdu mörg vottorð mætra manna, sem ætla mætti að yrði til þess, að styrkbeiðnin fengi enn betri áheyrn. Eins og hv. frsm. (B. J.) tók fram, er Helgi Hermann einn af okkar allra efnilegustu mentamönnum. Hann stundar nám í Englandi, og það fræðigrein, sem við þurfum einmitt á að halda, sem sje námafræði. Háttv. frsm. sagði, að nefndin hefði ekki sjeð sjer fært að fara fram á hærri styrk en 1200 kr. Skal jeg kannast við það, að nefndin hefir gert vel, að hækka styrkinn þetta, þar sem það er hæsti styrkur, sem nokkrum manni hefir verið veittur til náms. En samt sem áður er styrkurinn svo lítill, að jeg tel engan efa á, að maðurinn verði að hætta við nám, ef styrkurinn verður ekki hækkaður meira. Helgi er alveg efnalaus maður, sem hefir brotist áfram með dugnaði og lítilsháttar stoð vina og vandamanna, sem nú mun fara þverrandi, vegna þess, að þeir, sem hafa miðlað honum áður, geta nú ekkert af hendi látið vegna dýrtíðarinnar. Þó þetta sje hæsti námsstyrkur, sem veittur hefir verið, þá vil jeg biðja háttv. þingmenn að líta á, hvílík nauðsyn hjer kallar að. Menn ættu að geta sjeð það, að það er annaðhvort að gera, að styrkja manninn vel, svo hann geti lagt stund á nám sitt, eða styrkja hann ekki. Helgi er einstaklega reglusamur piltur og því engin hætta á, að hann verji því fje illa, sem honum verður veitt. En það er svo langt frá því, að þessar 1200 kr. sjeu nægilegt fje til að lifa á í Englandi eins og ástandið er nú, að það mundi vera fulllítið þó veittar væru tvisvar sinnum 1200 kr. Jeg efast nú reyndar um, að háttv. deild sjái sjer fært að samþykkja svo háan styrk, en jeg treysti mönnum til að taka því vel, að jeg reyni að breyta þessum lið eitthvað í hækkunaráttina við 3. umr. Jeg vona, að ef háttv. þingm. vilja kynna sjer skjölin, sem umsókninni fylgja, að þeir verði mjer samdóma um það, að rjettlátt sje að hafa styrkinn svo háan að maðurinn geti komist áfram með nám sitt, en þurfi hvorki að svelta nje neyðast til að hætta við námið hálfklárað. Það getur kostað okkur meira, ef við missum starfskrafta hans alveg á þann hátt. Þegar svona brýna nauðsyn ber til, ættum við að sýna, að við sjeum menningarþjóð, með því að styrkja unga og efnilega mentamenn, sem eru að búa sig undir að ganga í okkar þjónustu. Því það verð jeg að telja, þrátt fyrir mína sparnaðartilhneigingu, brýna skyldu hvers þjóðfjelags, sem vill telja sig þess maklegt að heita sjálfstæð þjóð að styrkja unga og efnilega mentamenn.

Jeg ætla ekki að blanda mjer inn í það, að ræða einstakar tillögur, hvorki frá nefndinni nje einstökum mönnum. Mjer þótti kenna vantrausts til stjórnarinnar hjá hæstv. atvinnumálaráðherra, að hann skuli ekki treysta stjórninni til að úthluta þessum 16000 kr. styrk til skálda og listamanna, án þess að hafa nefnd sjer til aðstoðar. Þegar samþykt var að láta kjósa þessa nefnd, til að úthluta styrknum, þá var stjórnin ekki skipuð þremur mönnum, eins og nú, heldur að eins einum, og er því minni ástæða til að halda þessari nefnd nú. Jeg hygg, að háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hafi gengið það til með fyrirspurn sinni, að vita hvort þingið er sama sinnis nú, og það var þá. Fyrst jeg er farinn að tala um skáldastyrkinn á annað borð, er rjett að jeg geri grein fyrir atkv. mínu um þennan lið. Jeg hefi nú fengið orð fyrir það, að vera nokkuð íhaldssamur, þegar um styrkveitingar er að ræða, og skal jeg játa, að það er ekki alveg að ástæðulausu, sem mjer er brugðið um það. Mjer finst þó sjálfsagt að styrkja listamennina, eftir því sem hægt er, það er að segja þá, sem eiga það skilið, að þeir sjeu styrktir.

Jeg treysti stjórninni, eða í það minsta meiri hluta hennar, manna best til þess að sjá um það, að styrkurinn renni til þeirra, sem verðskulda hann. Jeg tel jafnvel ekki úr vegi, að styrkja þessa menn nokkru meira nú, en venja er til. Dýrtíðin kemur ekki síður niður á þessum mönnum en öðrum. Um rithöfunda er það öllum ljóst, að nú er meiri erfiðleikum bundið fyrir þá, að koma verkum sínum út, heldur en áður hefir verið. Sama er að segja um listamenn á öðrum sviðum. Alt efni, sem þeir þurfa á að halda til listar sinnar, er í margföldu verði, og dýrtíðin bakar þeim öllum meiri og minni erfiðleika. Jeg greiði því atkvæði með þessari hækkun nefndarinnar, hvað sem líður öðrum tillögum hennar.

Annars ætla jeg ekki að fjölyrða um tillögurnar, enda álít jeg langar umræður ekki hafa mikla þýðingu, og varla sitja á öðrum, að halda langar ræður, en þeim, sem vilja sýna mælsku sína.