04.07.1917
Efri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

5. mál, lögræði

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. Get látið mjer nægja að vísa til aths., sem frv. fylgja.

Háttv. Ed. samþ. árið 1911 áskorun til stjórnarinnar um að rannsaka þetta mál og leggja fyrir þingið frv. til laga um persónulegan og fjárhagslegan myndugleika. Þáverandi stjórn leitaði til lagadeildar Háskólans og samdi prófessor Lárus H. Bjarnason frv. og fjellst lagadeildin á till. hans.

Aðalbreytingarnar, sem frv. þetta ber með sjer, er að lögaldur er lækkaður úr 25 árum í 21 ár, og jafnframt er hálfræði afnumið. Hjer á landi hefir lögaldur lengst af ekki verið bundinn við eins háan aldur og nú hefir tíðkast um hríð, og sú ósk hefir oft komið fram á Alþingi, að fullræðisaldur yrði lækkaður. Jeg fyrir mitt leyti er því meðmæltur. Og víst er um það, að þetta er í fullu samræmi við löggjöf flestra annara þjóða. Í Danmörku er lögaldur hærri, en víðast hvar annarsstaðar er hann bundinn við 21 árs aldur. Raunar skiftir þetta ekki miklu máli í viðskiftum, en þó getur hlotist af því nokkur bagi. Það hefir t. d. komið fyrir, að Íslendingar, sem búsettir voru í Bandaríkjunum og þar höfðu algert fullræði, gátu ekki tekið arf, sem þeim tæmdist á Íslandi, fyllilega í sínar hendur. Yfirleitt er þetta í samræmi við almennan Evrópurjett og til talsverðra bóta. Hálfræði það, sem hjer hefir tíðkast, er naumast mikilsvert. Þeir menn eru margir, sem hafa ekki orðið meðráðamannsins mikið varir frá 18 ára aldri til 25 ára.

Að öðru leyti leyfi jeg mjer að vísa til aths. við frv., og vænti þess, að hv. Alþ. taki vel í málið. Skoðanir manna hafa helst verið skiftar um það, hvort fullræði eigi að vera bundið við 20 ára eða 21 árs aldur, og hvort afnema skuli hálfræði. Jeg fyrir mitt leyti hallast að því að binda fullræði við 21 árs aldur og afnema hálfræði.

Jeg vil gera það að till. minni, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.