30.07.1917
Efri deild: 17. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1027 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

5. mál, lögræði

Frsm. (Hannes Hafstein):

Jeg heyrði það á ræðu hæstv. forsætisráðh., að það var ekki af misgáningi sprottið, að hjúum var ekki ætlaður sami rjettur og öðrum til þess að vera lögráðamenn. Jeg verð því að biðja afsökunar á því, að nefndinni skyldi koma þetta til hugar, en hún hjelt sem sje, að frv. hefði verið samið áður en stjórnarskránni var breytt, og svo hefði stjórninni skotist yfir þetta atriði, er hún lagði málið fyrir þingið.

Hæstv. forsætisráðherra taldi nauðsyn bera til þess, að lögráðamaður hefði fult frelsi, og væri þess vegna oft örðugt fyrir hjú að hafa þann starfa á hendi. Jeg fæ ekki betur sjeð en að hægurinn sje hjá að ráða fram úr þeim vandkvæðum. Hjúið þarf þess eins með að leysa vistarbandið. Jeg skil ekki, að það geti sett neinn mann á hausinn, sem annars á að hafa forráð fyrir fje, sem einhverju nemur. Og mjer finst það skifta miklu máli, að ekkert það verði látið hanga við hjúastjettina, sem valdið gæti því, að mönnum finnist hún óvirðulegri eða lægri en aðrar stjettir í landinu. Landið þarf á því fólki að halda, sem ekki finst læging í því að vinna fyrir aðra borgara landsins. Og ef þetta ákvæði í þessum lögum gæti stuðlað til þess, að sú tilfinning hyrfi, þá yrði það áreiðanlega ekki gagnslaust.

Jeg ætla ekki að þrátta um orðabreytingar nefndarinnar. Þær eiga betur við minn smekk, en vitanlegt er, að hverjum þykir sinn fugl fagur, því að jeg get ekki neitað því, að jeg hefi átt minn þátt í þessum brtt. Hæstv. forsætisráðherra mintist á orðið lögræði og bar það saman við þingræði og þjóðræði. Mjer finst ekki sá samanburður vera alls kostar rjettur. Orðið þingræði er subjektivt hugsað, þ. e. þingið ræður, en lögræði merkir ekki að lögin ráði, heldur ráði maðurinn sjálfur yfir sínum málum samkvæmt lögum. Og ef farið er eftir hljóminum í orðunum, þá verður því ekki neitað, að fallegra er að segja, að maður ráði ráðum sínum en að hann hafi lögræði. Annars skal jeg ekki tefja tímann með því að fara frekar út í þetta, en jeg vona, að mönnum gefist tækifæri til þess að leiðrjetta breytingar nefndarinnar við næstu umr. málsins, ef þeim leikur hugur á því.