07.08.1917
Neðri deild: 27. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

5. mál, lögræði

Forsætisráðherra (J. M.):

Um málið sjálft ætla jeg ekki að ræða. Er mjög góð greinargerð í aths. við frv., og geri jeg ráð fyrir, að háttv. deildarmenn hafi kynt sjer það vel, eða muni gera það, því að þetta er mjög merkilegt mál. Breytingar háttv. Ed. skal jeg ekki lasta, en þó finst mjer þeirri háttv. deild eigi hafa vel tekist með nýyrði þau, sem hún hefir sett inn í frv., í stað sumra þeirra nýyrða, er þar voru í upphafi. Þau nýyrði voru að mínu áliti mjög góð, og þar sem þau eru ekki eftir mig, er dómur minn óvilhallur. Held jeg betra að setja frv. að því leyti í upprunalegt form. Ef málinu verður vísað til allsherjarnefndar, treysti jeg því, að þetta atriði verði vandlega athugað, og bætt úr því, sem aflaga hefir farið hjá háttv. Ed. að þessu leyti.