10.09.1917
Neðri deild: 56. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1037 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

5. mál, lögræði

Bjarni Jónsson:

Jeg hefi lesið þessar deilur deildanna og lýsi þess vegna yfir því, að nefndin í Ed. hefir rangt fyrir sjer, en nefndin hjer rjett. Því líkar mjer einnig illa boðskapur háttv. framsm. (E. A.) um lýsingarorðin, með því að óbeygileg lýsingarorð á -a eru ljót. Auk þess þykir mjer það hastarlegt, að Alþingi fari að berja niður fræðiorð, sem kennari notar við Háskólann, þegar ekki er um smekkleysur að ræða, og verð að telja það óhæfu, einkum þegar lagt er til að setja vont mál í staðinn fyrir betra mál.