24.08.1917
Neðri deild: 42. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1918 og 1919

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg á að eins eina brtt. við þennan kafla fjárlaganna, sem sje 144. lið á atkvæðaskránni, um 1200 kr. styrk á ári til Guðmundar Marteinssonar. Málaleitun um þetta var send fjárveitinganefnd, en var svo ófullkomin að upplýsingum til, að ekki var von, að nefndin gæti sint henni, eins og háttv. framsm. (B. J.) tók fram. Jeg mundi hafa getað gefið nokkrar frekari upplýsingar, en með því að jeg þekti ekki manninn nema af afspurn, og ekki aðstandendur hans, þá taldi jeg rjettast að bíða eftir betri gögnum, en vegna þess að skipaferðir eru strjálar, hefir staðið á brjefi, en loks kom það þó nú með Fálkanum og þar með frekari upplýsingar. Þessi maður fór til Noregs árið 1913 og tók stúdentspróf í Stafangri í sumar. Hann hefir fyrirhugað að leggja stund á rafmagnsfræði; hefir hann verið á verkstæðum í Noregi og eins í Þýskalandi; dvaldi hann í Hamborg í nokkra mánuði. Hjer liggja nú fyrir vottorð og prófskírteini frá húsbændum hans og kennurum, mjög lofsamleg. Þess er að gæta, að þessi maður hefir komist það, sem hann er kominn, algerlega af eigin ramleik. Faðir hans er dáinn og móðir hans fátæk kona, að vísu gift nú, en ekki þess megnug að geta rjett syni sínum nokkra hjálparhönd; eina vonin fyrir hann er því, að Alþingi veiti honum nokkurn styrk. Jeg tók þessa brtt. upp, af því að jeg leit svo á, að nám hans gæti orðið þýðingarmikið fyrir land vort, ef vjer nú í alvöru tökum að beisla fossana. Það mundi þá ekki, þegar til kæmi, vera þýðingarlítið að hafa íslenskan mann, sem kann að hafa taumhald á fossunum. Í þetta sinn tek jeg brtt. aftur í þeirri von, að fjárveitinganefnd taki hana upp, þegar hún hefir kannað öll þau gögn, sem hjer að lúta.

Jeg skal ekki að öðru leyti fjölyrða um fjárlögin; menn eru nú orðnir svo þreyttir á umræðum, að varla er á bætandi. Jeg skal þó víkja lítils háttar að fáeinum liðum.

Jeg skal þá fyrst víkja að 109. lið á atkvæðaskránni. Það er nú eiginlega eðlilegt, að ókunnugum mönnum, þegar þeir fyrst reka augun í þessa fjárveitingu, þyki hún óþörf og telji óviðurkvæmilegt, að stofnað sje nýtt embætti nú í þessari tíð. En hins vegar er á það að líta, að sá, sem hjer á hlut að máli, hefir gegnt þessu starfi árum saman fyrir sultarlaun, og þegar nú horfurnar eru þær, að búast má við, að maðurinn leggi kensluna niður að öðrum kosti, þá virðist þó eðlilegra að taka beiðninni vel til þess að tryggja skólanum ágætan mann. Það er ekki eingöngu Kennaraskólinn, sem nýtur kenslu þessa manns, heldur og fleiri skólar og allmargt ungra manna að auk. Mjer finst það líka lítil áhrif hafa á fjárlögin í heild sinni, hvort sparaðar eru 400 kr., saman borið við það, að halda þessum ágæta manni, sem vafalaust er allra manna hæfastur í sinni grein hjer í bæ eða jafnvel hjer á landi.

Þá er 133. liður atkvæðaskrárinnar, sem kominn er fram að tilhlutun bjargráðanefndar. Það er alveg rjett hjá hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að þessi styrkur mundi ekki geta komið að haldi í vetur, en vjer erum nú allir jafnófróðir um það, hvað þessir dýrtíðarerfiðleikar muni standa lengi, og alveg órannsakað er það, hvað hagnýta má þörunga og sjávargróður; í honum getur verið miklu meira manneldi en menn hafa haldið hingað til, og væri það þá ekki þýðingarlítið, ef hægt væri að bæta eitthvað úr dýrtíðinni með þessu, og þótt þessu væri slept, væri það ekki lítilsvert að fá rannsóknir um það, hvernig fóðurgildi og manneldi þessara jurta er farið.

Þá er 150. liður á atkv.skránni, er fer fram á 500 kr. styrk fyrra árið til Benedikts Þórkelssonar. Þegar háttv. flutnm. (St. St.) var að mæla með þeirri brtt., þá datt mjer í hug hin forngríska frásögn um Júpíter, er hann úthlutaði verðlaunum eitt sinn handa þeim, er unnið hefði þjóð sinni mest gagn. Um þau keptu prestur, lögfræðingur, læknir, sagnfræðingur, myndhöggvari o. s. frv. Þegar að því var komið, að Júpíter ætlaði að fara að veita myndhöggvaranum verðlaunin, varð hann var við gamlan þul, sem álengdar stóð, og spurði hann, hvað hann hefði gert. »Jeg hefi ekkert gert«, svaraði gamli maðurinn, »hinir hafa gert alt; þeir eru lærisveinar mínar mínir«. Það getur verið, að Benedikt hafi ekki gert svo mikið sem þessi kennari; jeg get ekki um það sagt, með því að jeg þekki hann ekki, en eftir því sem jeg hefi sjeð einn lærisveina hans skrifa um hann, virðist mjer sem hann hafi haft holl áhrif á hann og eins er þá líklega um fleiri, og finst mjer ekki rjett að telja eftir þennan litla styrk. Jeg býst ekki við, að deildin sje að vísu eins skygn og Júpíter, en svo skygn ætti hún að vera, að hafa ekki á móti svo lítilli styrkveitingu til manns sem jafnlengi hefir dyggilega starfað í þarfir þjóðfjelagsins.

Loks er 151. liður atkvæðaskrárinnar, sem fer fram á að fella niður styrkinn til stórstúku Íslands. Aðrir hafa nú vikið að þessu, svo að jeg þarf ekki að fjölyrða um liðinn. En undarlegt er að heyra amast við þessum litla styrk af mönnum, sem þykjast vera hlyntir þessum fjelagsskap og stefnu hans, er til svo mikilla þjóðþrifa hefir leitt fyrir oss. Því að þótt segja megi, að ekki þurfi lengur að heyja orustu við vínnautnina, þá er hún þó ekki alveg útdauð, og því nauðsyn að halda fjárveitingunni áfram, svo að vjer sjeum ekki alveg andvaralausir í þessum efnum. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi fela kennarafjelaginu framkvæmdir þessa máis; jeg fæ ekki skilið þá tillögu, með því að kunnugt er, að einmitt í þessum efnum er forusta þess forráðamanns ljeleg.

Jeg mun þá ekki ræða meira um einstaka liði, en sýni með atkvgr. hvernig jeg lít á þá.