04.07.1917
Efri deild: 2. fundur, 28. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (603)

6. mál, þóknun til vitna

Forsætisráðherra (J. M.):

Þetta mál er gamalt. Árið 1891 kom fram frv. frá stjórninni um að borga mönnum, er voru leiddir sem vitni í opinberum málum. En sje ástæða til þess að gjalda vitnum í opinberum málum, þá virðist hún ekki vera síður er um vitni í einkamálum er að ræða. Vitanlega er ekki ætlast til þess að ávalt sje borgað, heldur eingöngu er dómaranum sjálfum finst ástæða til þess. Og sjálfsagt virðist, að vitnið hafi rjettinn til þess að krefjast gjalds. Og ástæðan er að því leyti meiri fyrir því að borga vitnum í einkamálum, að segja má, að það sje fremur borgaraleg skylda manna að bera vitni er um sakamál eða önnur opinber mál er að ræða, þar sem oft er um það teflt að koma upp glæp, heldur en bera vitni fyrir einstaka menn. Jeg held því, að sjálfsagt sje, að vitni fái borgun fyrir ómak sitt, ferðakostnað og töf, ef þau krefjast þess sjálf. Gjaldið, sem ákveðið er í frv., er ef til vill nokkuð lágt; minna má það að minsta kosti ekki vera. Mjer hefir oft gramist að sjá fátæka verkamenn tekna frá vinnu sinni og ef til vildi bíða meiri hluta dags við vitnaleiðslu. Komið hefir það fyrir, að menn hafa verið teknir tvisvar frá starfa sínum til þess að bera vitni í sama málinu, án þess að nokkuð verulegt hafi verið í húfi.

Jeg leyfi mjer að leggja það til, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar.